Hvert stefnir þjóðkirkjan? Ólafur Þ. Hallgrímsson skrifar
Það eru breytingar að verða í þjóðkirkjunni, sem ekki fara framhjá neinum, ekki heldur fyrrv. sveitpresti, komnum á eftirlaun, sem bregður í brún og finnst erfitt að átta sig á ýmsu, sem þar er að gerast. Stjórnsýslu kirkjunnar hefur verið skipt upp í tvö aðgreind svið, frá síðustu áramótum, sem kann að vera til bóta. Prestaköll sameinuð samkv. ákvörðunum kirkjuþings og biskupafundar
nær þegjandi og hljóðalaust og að því er virðist án minnsta samráðs við heimamenn. Tveim eða fleiri prestaköllum er slegið saman í eitt bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni, nú síðast hafa Húnavatnssýslur báðar verið sameinaðar í eitt prestakall, Húnavatnsprestakall, en því víðfeðma umdæmi þjóna nú aðeins þrír prestar í stað sex, er undirritaður kom til starfa í Bólstaðarprestakalli árið 1981.
Heyrst hefur, að leggja eigi niður allt að tug prestsembætta til að spara. Jafna þarf þjónustubyrði prestanna í þéttbýli og dreifbýli og auka samvinnu presta, segja kirkjuþingsmenn. Fjárhagur kirkjunnar er þungur og fer versnandi, eftir að ríki og kirkja hafa formlega verið aðskilin og prestar ekki lengur ríkisstarfsmenn, heldur launamenn hjá þjóðkirkjunni – Biskupsstofu.
En embættin verða nær öll lögð niður á landsbyggðinni. Þegar grannt er skoðað, verður sparnaðurinn einkum í því fólginn að fækka prestum í dreifbýli og skerða þjónustu kirkjunnar þar.
Á þjónustuárum mínum í Mælifellsprestakalli máttum við iðulega búa við þann söng, að sveitaprestar hefðu of lítið að gera, lægju nánast mest undir sæng, því þyrfti að leggja niður prestaköll og fækka prestum. Reynsla mín af 27 ára þjónustu í sveitaprestakalli er vissulega allt önnur. Síst af öllu geri ég lítið úr vinnuálagi presta á höfuðborgarsvæðinu, sem oft er mikið, en þeir hafa á móti á að skipa ýmsu samstarfsfólki, sem sveitapresturinn hefur ekki.
Kristni og þjóðlíf hafa löngum haldist í hendur í okkar landi. Kristindómurinn er arfur, menning okkar kristin menning. Nú er kannski að verða þar breyting á. Gömlu prestakallanöfnin minna á þessi tengsl kristni og þjóðlífs. Nöfn eins og Valþjófsstaðarprestakall, Þingeyrarklaustursprestakall, Saurbæjarprestakall, svo fá ein séu nefnd.
Ég er áreiðanlega ekki einn um það að finnast eftirsjá að þessum nöfnum og með hvarfi þeirra rofni einhver þráður sögu og fortíðar. Veit ég þó að kirkjuhúsin verða áfram á sínum stað.
Í staðinn koma ný nöfn tengd landfræðilegu umhverfi og hafa ekkert með kristni að gera. Er kirkjan að höggva á rætur fortíðarinnar?
En margt er að breytast, rétt er það, og þarf ekki mörg orð um að hafa. Þjóðfélagið tekur stöðugum breytingum, og vissulega þarf kirkjan alltaf að halda vöku sinni, skoða verklag sitt og finna nýjar leiðir til að koma boðskapnum á framfæri. En er sameining prestakalla, stærri prestaköll, endilega svarið við því? Það dreg ég í efa. Finnur einstaklingurinn sig betur heima í víðlendu prestakalli en fámennu, þar sem nánd er meiri og boðleiðir styttri? Er líklegt, að sameining verði til að bæta kirkjusókn?
Reynsla mín er sú, að fólk sé mjög bundið tilfinningarlega sinni sóknarkirkju og sókn og vilji helst ekki fara út fyrir sóknarmörkin. Skiptir einstaklingurinn líka ekki alltaf mestu máli í kirkjunni, þegar allt kemur til alls. Hvers vegna ekki að leggja meiri áherslu á samstarf presta, t.d. innan hvers prófastsdæmis, fremur en sameiningar. Hafa prestar ekki alltaf getað unnið saman, það þekki ég a.m.k. vel úr mínu starfi.
Sameining á flestum sviðum þjóðlífsins er e.k. lausnarorð nú um stundir. Því stærra, þeim mun betra og meiri slagkraftur, segja menn. Er „slagkraftur“ kirkjunnar kominn undir stærri prestaköllum? Á kirkjan að taka þátt í dansinum?
Kirkjan getur ekki elst við tískustrauma eða staðið í vinsældakeppni. Hún er tákn þess, sem fast er og öruggt í tilverunni, þess sem stendur fast í ótryggum og síbreytilegum heimi. Þannig tel ég, að fólk vilji líka hafa hana. Hún getur ekki þóknast öllum né haft alla góða. Ekki gerði Kristur það. Hún verður að standa föst á sinni rót í kærleika og umburðarlyndi, ekki slíta rætur fortíðarinnar, sem samofnar eru þjóðarsálinni. Hún verður að vera meðvituð um, á hvaða leið hún er.
Það eru forréttindi að vera þjónn í kirkju Jesú Krists, sem er hinn sami í gær og í dag og verður um aldir, og koma boðskapnum eilífa til fólks í gleði jafnt sem sorg. Af því ættum við að vera stolt.
Megi Drottinn vísa veginn.
Ólafur Þ. Hallgrímsson
( Höf. er pastor emiritus )
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.