Húnvetningar herja á Grenivík
Það hafa mörg fótboltaliðin farið fýluferð til Grenivíkur í gegnum tíðina. Lið Kormáks/Hvatar gírar sig nú glaðbeitt upp í ferð á víkina Grenis því á morgun spila Húnvetningar 21. leik sumarsins og með hagstæðum úrslitum gætu þeir tryggt sér sæti í 2. deild þegar ein umferð er eftir af tímabilinu.
Lið heimamanna hefur ekki átt sérstöku gengi að fagna í sumar, er í sjöunda sæti með 27 stig, en Kormákur/Hvöt er með 41 stig. Borubrattir aðdáendur Kormáks/Hvatar segjast fara í Eyjafjörðinn fullir væntinga og vona. „Burtséð frá hvað gerist þar þá er risahátíð þann 16. september á Blönduósi!“ Þá fer nefnilega fram síðasta umferðin í 3. deild þetta sumar og lið Augnabliks mætir þá á Blönduósvöll.
Sætaferðir verða farnar frá Reykjavík, Hvammstanga og Blönduósi á Grenivík og heyrst hefur að fyrstu bílar leggi af stað um 7 í fyrramálið. „Staferðir á einkabílum, ekki gömlu góðu í rútunum. Það eru allir í göngum og slíku svo menn eru dreifðir um allar koppgrundir,“ segir í svari Aðdáendasíðunnar þegar Feykir spyr hvar nálgast má sæti.
Leikurinn hefst kl. 14:00 og væntanlega verður bein textalýsing á Facebook-síðunni góðu. Áfram Kormákur/Hvöt!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.