Högni Elfar tók sæti sem varaþingmaður á Alþingi í gær
Högni Elfar Gylfason, bóndi á Korná í Skagafirði, tók sæti á Alþingi í gær sem varaþingmaður Norðvesturkjördæmis fyrir Bergþór Ólason í Miðflokknum. Þar flutti hann m.a. jómfrúarræðu sína í óundirbúnum fyrirspurnartíma um aðgerðir í þágu kolefnishlutleysis og spurði forsætisráðherra m.a. út í landbúnaðarmál í því sambandi. Feykir hafði samband við Högna og spurði hann út í upplifun sína af fyrsta þingmannsdeginum.
„Já, það leggst alltaf eitthvað til í reynslubankann og þetta slær nú líklega flest annað út sem ég hef brallað um dagana,“ sagði Högni Elfar þegar Feykir forvitnaðist um stóra daginn og fyrstu þingreynsluna. Hann segir daginn hafa verið tekinn mjög snemma til að undirbúnings fyrir fund í Fjárlaganefnd um morguninn þar sem fjallað var um fjáraukalög.
„Þá þurfti ég líka að fínslípa það sem ég ætlaði að spyrja forsætisráðherra um í óundirbúnum fyrirspurnum á þingfundinum seinnipartinn. Það má vel nefna það að starfsfólk og þingmenn eru upp til hópa afar vinalegt fólk sem tekur vel á móti nýliðum og þar var forsætisráðherra engin undantekning,“ segir hann.
Auk vangaveltna um kolefnishlutleysi snérust spurningar Högna til Katrínar um landbúnaðarmál og stefnu ríkisstjórnarinnar í framleiðslu kjöts á Íslandi og stuðning við innlenda kjöt- og mjólkurframleiðslu. „Svörin hennar voru alveg ágæt, en þó ekki alveg nægilega skýr fyrir minn smekk, en það kallar bara á frekari fyrirspurnir um málefnið sem um ræddi.“
Aðspurður hvað hafi staðið upp úr frá deginum segir Högni það hafa verið hvað Alþingi er ólíkt því sem hann hafði gert sér í hugarlund. „Þarna er allt á fleygiferð og alltaf eitthvað að gerast. Mér segir svo hugur að alþingismaður sem vill standa sig í vinnunni þurfi að vinna langa daga og fylgjast vel með, því hraðinn er mikill á málum, en það kemur reyndar heim og saman við stöðuna hjá þeim sem ég þekki best. Núna sit ég uppi á hótelherbergi, klukkan komin fram yfir miðnætti og ég að lesa mér til gagns fyrir morgundaginn og æfa ræðustúf sem til stendur að flytja á þingfundi upp úr hádeginu.“
Högni segist þakklátur sínu fólki í Miðflokknum og kjósendum flokksins að fá þetta tækifæri til að reyna að hafa áhrif til góðs á Alþingi Íslendinga. „Það er hreint ekki sjálfgefið að komast í þá stöðu að geta látið í sér heyra í ræðustól þar á bæ. Vonandi kem ég einhverju til skila þar. Dropinn holar steininn.“
Hér fyrir neðan má sjá Högna Elfar í ræðustól á Alþingi, beina spurningum sínum til Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.