Heldur minni veiði en í fyrra í húnvetnsku laxveiðiánum
Húnahornið segir frá því að veiði í húnvetnsku laxveiðiánum sé almennt heldur minni sem af er sumri en á sama tíma í fyrra. „Mest hefur veiðst í Miðfjarðará eða 409 laxar en á sama tíma í fyrra höfðu veiðst 452 laxar. Áin er í sjöunda sæti yfir aflamestu laxveiði ár landsins og hefur hún oft verið ofar á listanum. Veiðst hafa 267 laxar í Blöndu samanborið við 326 laxa á sama tíma í fyrra. Laxá á Ásum er komin í 265 laxa en í fyrra höfðu veiðst 375 laxar á sama tíma,“ segir í frétt Húna.is
Fram kemur að Víðidalsá sé komin í 256 laxa (262 í fyrra), Vatnsdalsá í 148 (124 í fyrra), Hrútafjarðará í 37 (36 í fyrra) og Svartá í 32 (55 í fyrra).
Samtals hafa því veiðst 1.414 laxar sem af er sumri í sjö helstu laxveiðiám Húnavatnssýslna en á sama tíma í fyrra höfðu veiðst 1.630 eða 216 fleiri laxar.
Veiðitölur má sjá á www.angling.is.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.