Heim í sýsluna fögru :: Áskorandapenni Þuríður Hermannsdóttir á Akri
Húnavatnssýslan hefur alltaf átt hug minn og hjarta. Þrátt fyrir að hafa frá barnsaldri gengið í skóla annars staðar er ég svo heppin að eiga yndislegar ömmur, afa og frænkur sem tóku sveitastelpuna inn við hvert tækifæri sem gafst. Eftir að hafa lokið námi í búvísindum á Hvanneyri ásamt dýralæknanámi í Slóvakíu gat ég svo loksins flutt alfarið heim að Akri og tekið fullan þátt í sauðfjárbúskapnum. Ég starfa nú sem dýralæknir hjá Dýraspítalanum í Glæsibæ, með starfssvæði í Austur- og Vestur-Húnavatnssýslu.
Ég tel það forréttindi, fyrir nýútskrifað ungt fólk að hefja sinn starfsferil í samfélagi eins og okkar. Mér hefur verið sýnd mikil vinsemd, virðing og skilningur og er ég gríðarlega þakklát fyrir það og hlakka til þess að mæta til vinnu á hverjum degi. Það er gaman að fá að ferðast um svæðið, kynnast íbúum þess, búskapnum og að sjá alla þá náttúru sem svæðið hefur upp á að bjóða.
Nú er komið að þeim tímamótum að ákveðið hefur verið að sameina Blönduós og Húnavatnshrepp í eitt sveitarfélag. Tvö flott sveitarfélög sem unnið hafa vel að sínum málum en saman tel ég að hægt sé að ná hlutunum enn lengra, og sameinuð séum við sterkari.
Minn áhugi beinist að landbúnaðinum, náttúrunni og umhverfinu ásamt því að viðhalda þeirri menningu og sögu sem finnst á svæðinu. Bæta þarf kjör bænda, hækka afurðaverð, leggja áherslu á sjálfbæra landnýtingu og nýta hana til frekari markaðssetningar á vörunum okkar. Einnig þurfum við að nýta ullina, auka vinnsluna á henni og styðja við textíliðnað á svæðinu ásamt því að passa vel upp á náttúruperlurnar okkar, jafnt til heiða og í byggð. Aðgengi að þeim þarf að bæta ásamt því að laga tengi- og héraðsvegi. Einnig tel ég að með eflingu gamla bæjarins á Blönduósi gætum við skapað skemmtilega stemningu sem dregur fólk að. Við höfum mörg tækifæri í höndunum til þess að kalla fólk til okkar, fá ferðamenn jafnt innlenda sem erlenda til þess að stoppa og njóta þess sem sveitarfélagið hefur upp á að bjóða.
Bjartir sumardagar með göngu í Hrútey, reiðtúr yfir Húnavatnið svo ég tali nú ekki um að keyra hringinn í Vatnsdalnum eða í kringum Svínavatn á fallegu kvöldi, er til eitthvað betra?
Nú líður að sveitarstjórnarkosningum og leggja Sjálfstæðismenn og óháðir fram lista af sterku, frambærilegu fólki sem er annt um sveitarfélagið sitt og framtíð þess. Ég býð mig fram í 10. sæti listans og hlakka til að leggja mitt af mörkum í uppbyggingu á nýju sameinuðu sveitarfélagi.
Ég skora á Freyju Ólafsdóttur í Bólstaðarhlíð að taka við pennanum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.