Hátt í 15 þúsund tekið þátt í námskeiðum síðustu tvo áratugi - 30 ára afmæli Farskólans

Stjórnendur Farskólans, Bryndís Þráinsdóttir, Jóhann Ingólfsson og Halldór B. Gunnlaugsson. Mynd: PF. Aðrar myndir aðsendar.
Stjórnendur Farskólans, Bryndís Þráinsdóttir, Jóhann Ingólfsson og Halldór B. Gunnlaugsson. Mynd: PF. Aðrar myndir aðsendar.

Farskólinn -miðstöð símenntunar á Norðurlandi vestra fagnaði 30 ára afmæli sínu sl. föstudag en þann 9. desember 1992 var stofnfundur Farskólans haldinn. Skólanum var ætlað að annast hvers konar fræðslustarf í kjördæminu og átti starfsemi skólans að miðast við að auka starfshæfni og vellíðan, eins og segir í stofnskránni. Kraftmikil starfsemi er enn í Farskólanum og fjöldi nemenda sem sækja hvers kyns námskeið sem í boði eru. Bryndís Kristín Þráinsdóttir hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra Farskólans síðan 2003 og sendi Feykir henni spurningar í tilefni tímamótanna og byrjaði á því að forvitnast um starfsemi Farskólans, tilurð og tilgang.

Frá stofnfundi Farskólans 1992. 

-Stofnfundur Farskólans var haldinn 9. desember árið 1992 á Sauðárkróki. Á fundinum voru lögð fram drög að stofnskrá skólans. Stofnaðilar voru Fjölbrautaskólinn á Norðurlandi vestra, héraðsnefndirnar þrjár, sem þá voru enn starfandi. Menningar- og fræðslusamband alþýðu, Siglufjarðarkaupstaður og Iðnþróunarfélag Norðurlands vestra. Stofnaðilar höfðu séð þörf fyrir fræðslu, bæði fyrir einstaklinga og starfsfólk fyrirtækja og stofnana á svæðinu. Þannig að þetta framsýna fólk ákvað að stofna skóla eða símenntunarmiðstöð til að sinna þessum verkefnum. Tilgangurinn var meðal annars að auka starfshæfni og velllíðan fólks. Fyrsta námskeiðið var svo haldið árið eftir og það var námskeið fyrir starfsfólk í skólamötuneytum.

Er alltaf næg eftirspurn eftir námskeiðum?
-Eftirspurn eftir námskeiðum hefur farið vaxandi og náði ákveðnum hápunkti árið 2019 þegar haldin voru 120 námskeið og fyrirlestrar í Farskólanum. Það ár voru nemendur samtals 1557. Síðan kom Covid og Farskólinn hefur, eins og svo margar aðrar stofnanir í samfélaginu, glímt við þær afleiðingar sem heimsfaraldrinum fylgdi. Við erum bjartsýn og vonum að nú liggi leiðin aftur upp enda teljum við að Farskólinn hafi mikilvægu hlutverki að gegna í samfélaginu hér fyrir norðan.

Það má glögglega sjá að námskeiðin og önnur verkefni tengd þeim eru fjölbreytt og bryddað er upp á nýjungar. Er alltaf hægt að finna ný viðfangsefni?

Úrbeiningarnámskeið í Vörusmiðju BioPol.
-Með því að vera í góðu sambandi við íbúana og atvinnulífið á svæðinu þá fáum við óskir og hugmyndir inn á okkar borð. Við höfum verið dugleg að bjóða upp á fræðsluverkefni sem tilheyra „framhaldsfræðslunni“ en það nám er vottað og gefur framhaldsskólaeiningar og er hannað fyrir helsta markhóp Farskólans, sem er fullorðið fólk sem ekki hefur lokið framhaldsskóla. Öllum stendur til boða að koma í náms- og starfsráðgjöf þeim að kostnaðarlausu og eins þá bjóðum við hópnum upp á raunfærnimat og akkúrat núna erum við að raunfærnimeta starfsfólk í sundlaugum og íþróttahúsum í Skagafirði. Eftir áramótin verður þetta verkefni í boði í Húnabyggð og í Húnaþingi vestra ásamt Skagaströnd. Það sem helst hefur bæst við undanfarin ár eru námskeið fyrir bændur og aðra áhugasama tengd matarhandverki. Þau námskeið hafa verið vinsæl og eru haldin í samstarfi við Vörusmiðjuna á Skagaströnd og SSNV.

Hvernig gengur að fá fólk til að kenna eða leiðbeina á námskeiðum?
-Það gengur yfirleitt vel. Við höfum verið heppin með kennara eða leiðbeinendur. Í vottuðu námi eru þeir langflestir með kennsluréttindi og koma margir frá FNV og síðan kennir hjá okkur fjöldinn allur af sérfræðingum.

Hve margir vinna hjá skólanum og hve margir koma að kennslunni á hverju ári?
-Hjá skólanum starfa núna þrír starfsmenn. Auk mín eru það Jóhann Ingólfsson og Halldór B. Gunnlaugsson sem báðir sinna verkefnastjórn. Þeir sem hins vegar koma að kennslu og eru verktakar skipta tugum yfir árið.

Aðalstarfsstöðin er á Sauðárkróki, hvað geturðu sagt mér um námsver og námsstofur annars staðar á svæðinu?

Núverandi stjórn Farskólans.
-Skrifstofur Farskólans eru við Faxatorg á Sauðárkróki. Árið 2002 gerðu sveitarfélögin á svæðinu og Farskólinn með sér samstarfssamning um námsstofur og námsver. Á öllum stærri þéttbýlisstöðum eru rekin námsver sem fyrst og fremst voru hugsuð fyrir háskólanemendur í fjarnámi og eins fyrir námskeiðahald. Háskólanemendur geta fengið lykla og nýtt námsverin í sinni heimabyggð til að læra og taka próf. Það koma hundruð nemenda í próf á hverju ári. Ég held að ég geti fullyrt að hópurinn sé orðinn breiðari í dag, ef svo mætti segja, enda þjónusta námsverin einnig framhaldsskólanemendur og aðra sem þurfa til dæmis að taka próf. Sú stefna sveitarfélaganna að bjóða fjarnemendum upp á aðstöðu til náms í sinni heimabyggð hefur verið farsæl og þau eiga miklar þakkir skildar fyrir þetta framtak og stuðla þannig að því að auðveldara er fyrir fólk sem býr og starfar á Norðurlandi vestra að sækja sér menntun.

Hefur þú tölur um hve margir nemendur hafa tekið þátt eða útskrifast þetta árið og jafnvel í heildina?
-Frá árinu 2003 hafa hátt í 15 þúsund þátttakendur tekið þátt í námskeiðum hjá Farskólanum. Það sem af er þessu ári höfum við útskrifað nemendur af leikskólaliða- og stuðningsfulltrúabrú, grunnnámi fyrir starfsfólk fiskvinnslunnar, færni í ferðaþjónustu og Grunnmennt. Síðan höfum við útskrifað nemendur af nokkrum íslenskunámskeiðum svo dæmi séu tekin. Tölfræði þessa árs liggur ekki alveg fyrir ennþá en hún mun birtast í árskýrslu þessa árs. Ársskýrslur Farskólans, sem eru töluvert ítarlegar, má sjá á heimasíðu skólans.

Geturðu lagt mat á það hversu mikilvægur skólinn er fyrir íbúa Norðurlands vestra?

Raunfærnimat 2021.
-Í mínum huga er starf Farskólans mikilvægt fyrir íbúa á Norðurlandi vestra. Farskólinn er sveigjanlegur og getur brugðist fljótt við aðstæðum sem geta komið upp. Hrunið er til dæmis gott dæmi um það. Ég tel að eitt farsælasta verkefni sem Farskólinn hefur ráðist í hafi verið Evrópuverkefnið Breytum byggð sem haldið var fyrir íbúa á Hofsósi og nágrenni rétt eftir aldamótin. Það verkefni fékk sérstaka viðurkenningu og gekk út á að bjóða íbúum í samfélagi, þar sem hefðbundnar atvinnugreinar voru á undanhaldi, upp á nám í tölvugreinum, ferðamálafræði, ensku og sjálfsstyrkingu. Samsvarandi verkefni voru síðar haldin á Blönduósi, Skagaströnd og á Hvammstanga.

Annað dæmi sem má nefna eru smiðjurnar „Beint frá býli“ sem sérstaklega voru auglýstar fyrir bændur. Afurðaverð til bænda hafði lækkað og bændur settust á skólabekk í smiðjunum. Í kjölfarið hafa svo fylgt fjöldinn allur af námskeiðum í matarhandverki. Sem betur fer hefur atvinnuleysi á Norðurlandi vestra verið lágt í gegnum tíðina svona miðað við landið allt. Farskólinn hefur getað brugðist fljótt við í samstarfi við Vinnumálastofnun þegar á hefur þurft að halda. Má þar nefna Skrifstofuskóla og nám fyrir fólk sem starfar í ferðaþjónustu. Nú allra síðast skipulagði Farskólinn námskeið í tölvulæsi fyrir íbúa á svæðinu sem orðnir eru sextugir. Nú er mikið talað um fjórðu iðnbyltinguna og við þurfum að vera á tánum og tilbúin í að bjóða ný verkefni í tengslum við hana.

30 ár er stór áfangi og margt hlýtur að hafa tekið breytingum með árunum. Er eitthvað sem þú getur rifjað upp?

Útskriftarhópur vorið 2022.
-Það sem upp úr stendur eru klárlega tæknimálin. Við töldum okkur vel tæknivædd hér rétt eftir aldamótin þegar við höfðum yfir að ráða rándýrum fjarfundabúnuðum sem einnig voru keyptir í námsverin. Þá þurfti að styðjast við símalínur og mynd og hljóð fóru ekki alltaf saman. Í dag er tæknin kominn í lófana okkar og allir tengdir í gegnum símana eða tölvuna sína og geta þess vegna hlustað á sína fyrirlestra þar og tekið þátt í umræðum ef svo ber undir.

Hvernig sérðu framtíð skólans fyrir þér?
-Ég sé framtíð skólans sem bjarta. Stjórn skólans hefur stutt vel við starf skólans í gegnum tíðina og ég tel skólann hafa verið heppinn með starfsfólk og samstarfsfélaga eins og stéttarfélögin, sveitarfélögin, SSNV og Fjölbrautaskólann svo ég nefni dæmi. Skólinn hefur notið velvildar í samfélaginu. Breytingar eru óhjákvæmilegar í náinni framtíð. Nú gerir tæknin okkur kleift að bjóða upp á námskeið á landsvísu. Aðrir fræðsluaðilar eru þegar farnir að nýta sér tæknina í meira mæli. Við ætlum okkur að taka þátt í þeim leik og markmiðið er að við stöndum okkur vel þar en fyrst og fremst ætlum við að þjóna okkar fólki sem býr hér á Norðurlandi vestra.

Feykir þakkar Bryndísi fyrir greinargóð svör og óskar öllum til hamingju með þennan magnaða skóla.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir