Hámarksútsvar hækkar, tekjuskattur lækkar
Aukafundur sveitarstjórnar Skagafjarðar var haldinn í morgun þar sem útsvarshlutfall í Skagafirði árið 2023 verður tekið til endurskoðunar. Breytingar hafa verið boðaðar á tekjuskatti einstaklinga og útsvarsprósentum sveitarfélaga um áramótin í kjölfar þriðja samkomulags ríkis og sveitarfélaga um breytingu á fjármögnun lögbundinnar þjónustu sveitarfélaga við fatlað fólk.
Á heimasíðu stjórnarráðsins segir að í samkomulaginu felist varanleg tilfærsla fjármuna sem nema 5 ma.kr. árlega frá ríki til sveitarfélaga í því skyni að gera þeim kleift að ná settum afkomu- og skuldamarkmiðum í gildandi fjármálaáætlun fyrir árin 2023-2027. Aðgerðin felur í sér að hámarksútsvar verður hækkað og tekjuskattur einstaklinga lækkaður jafn mikið samhliða og er því hlutlaus fyrir skattgreiðendur að því gefnu að sveitarfélög nýti sér hina auknu heimild til að hækka útsvar.
„Samkomulag gert við Samband íslenskra sveitarfélaga um enn frekari yfirfærslu fjármuna frá ríkinu til sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlað fólk,“ skrifar Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, á Facebooksíðu sína. Ennfremur segir hann að skattar á heimili lækki um sex milljarða á næsta ári með hækkun skattleysis- og þrepamarka vegna kerfisbreytinga ríkisins í tekjuskatti frá síðasta kjörtímabili.
Hækkun vísitölu neysluverðs liggur nú fyrir og nemur hún 9,6% á 12 mánaða tímabili og mun heildarhækkun persónuafsláttar og þrepamarka verða því 10,7%.
Í frétt á vef fjármálaráðuneytisins kemur fram að vegna kerfisbreytinga í tekjuskattskerfinu á síðasta kjörtímabili hafi persónuafsláttur og þrepamörk tekjuskattskerfisins hækkað í takt við verðbólgu og 1% framleiðnivöxt frá árinu 2021. Vegna verðbólgu á árinu sem er að líða hækka skattleysis- og þrepamörk um 10,7% árið 2023. Til samanburðar hafa laun almennt hækkað um u.þ.b. 8% á þessu ári og fyrirséð er að launahækkanir næsta árs verði viðlíka.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.