Grunnskólahald á Húnavöllum lagt niður

Húnavallaskóli
Húnavallaskóli

Forsendur fyrir grunnskólahaldi á Húnavöllum eru ekki lengur fyrir hendi að mati fræðslunefndar Húnabyggðar. Ljóst sé að mikill meirihluti foreldra kýs að börn þeirra sæki skóla á Blönduósi fremur en á Húnavöllum, segir í fundargerð nefndarinnar. Hefur hún lagt til við sveitarstjórn að aðeins verði grunnskólahald á Blönduósi skólaárið 2022-2023. Með ákvörðuninni lýkur tæplega 53 ára sögu grunnskólahalds á Húnavöllum. Sveitarstjórn hefur ákveðið að grunnskólahald verði eingöngu á Blönduósi.

Í síðasta mánuði fól sveitarstjórn Húnabyggðar skólastjóra að kalla eftir endanlegri ákvörðun foreldra barna, sem stundað hafa nám í Húnavallaskóla, um val á starfstöð grunnskóla fyrir skólaárið 2022-2023 og voru niðurstöður þær að ekki yrðu nema fjórir nemendur eftir í Húnavallaskóla í vetur. Upphaflega var lagt með að grunnskólastarf yrði bæði á Blönduósi og Húnavöllum, en í ljósi þessarar niðurstöðu hefur verið ákveðið að grunnskólahald verði eingöngu á Blönduósi.

Í bókun sveitarstjórnar á fundi sínum 5. ágúst segir að Húnavallaskóli hafi í gegnum tíðina gegnt lykilhlutverki í samfélaginu og skipað stóran sess í sögu héraðsins. Með ákvörðun meirihluta sveitarstjórnar að hafa grunnskólahald eingöngu á Blönduósi sé á engan hátt verið að varpa rýrð á sögulega mikilvægi Húnavallaskóla sem menntastofnunar. „Meirihlutinn vill taka skýrt fram að ákvörðun þessi byggir fyrst og fremst á lýðræðislegri niðurstöðu foreldra barna í Húnavallaskóla um hvar þeir kjósa að börn þeirra stundi skóla,“ segir í bókuninni. Þá verði öllu starfsfólki skólanna tryggð störf innan nýs grunnskóla sveitarfélagsins, eða hjá öðrum stofnunum þess ef þeir það kjósa. Þá leggur meirihlutinn áherslu á að hann muni kappkosta að finna fasteignum sveitarfélagsins á Húnavöllum nýtt hlutverk svo blómleg starfsemi megi þrífast þar í náinni framtíð.

Minnihlutinn í sveitarstjórn Húnabyggðar mótmælti áætlunum fræðslunefndar harðlega. „Það er sorglegt að sjá nýja nefndarmenn hins sameinaða sveitarfélags ganga svo þverlega gegn loforðum sem gefin voru fyrir sameiningarkosningarnar og skýla sér á bak við lýðræðislegt vinnubrögð sem engin voru,“ segir í bókun minnihlutans. Minnihlutinn vill meina að sú óformlega könnun sem lögð var fyrir foreldra nemenda á Húnavöllum hafi í besta falli verið ólögleg og brjóti gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Þar sem um eitt skólasvæði sé að ræða hefðu allir foreldra á svæðinu átt að fá að taka þátt. Enginn skýr meirihluti foreldra hafi látið í ljós skoðun sína þar sem aðeins hluti þeirra hafi tekið þátt. Áskilur minnihlutinn sér rétt að fara með málið lengra, eins og segir í bókuninni.

/huni.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir