Gert ráð fyrir sæmilegu veðri á Norðurlandi vestra yfir áramótin

Veðurviðvaranir á landinu kl. 9 í fyrramálið (31. desember 2022). SKJÁSKOT AF VEF VEÐURSTOFUNNAR
Veðurviðvaranir á landinu kl. 9 í fyrramálið (31. desember 2022). SKJÁSKOT AF VEF VEÐURSTOFUNNAR

Spáð er frekar leiðinlegu veðri á landinu á gamlársdag og fram að hádegi á nýársdag en það eru þó einkum íbúar vestan- og sunnanlands sem fá að finna fyrir skellinum. Hér á Norðvesturlandi er gert ráð fyrir austan 5-13 m/sek á morgun og snjókomu á köflum. Dregur heldur úr frosti.

Reikna má með að vindur nái sér eitthvað á strik yst á Skaga og sennilega austan fjalla. Króksarar virðast ætla sleppa nokkuð vel við vindinn og ætti því að viðra nokkuð vel til uppskota annað kvöld á þeim slóðum. Þegar líður á nýársdag snýst í suðvestanátt og þá gæti þurr snjórinn hugsað sér til hreyfings og rétt að fylgjast með færðinni ef fólk er á faraldsfæti.

Veður verður svipað á Norðausturlandi og á Austurlandi en gular viðvaranir taka gildi á Vesturlandi, Vestfjörðum og Suðvesturlandi upp úr miðnætti í nótt. Strengurinn færist síðan suður fyrir en versta veðrið verður væntanlega á Reykjanesi og austur að Mýrdal en appelsínugul viðvörun er á því svæði frá kl. 7-15 á morgun. Gul viðvörun er í kortunum á því svæði allt fram að hádegi á Nýársdag og reiknað með ófærð og jafnvel að vegum verði lokað enda gert ráð fyrir hvassviðri og éljum.

Sem stendur eru flestir vegir færir á Norðurlandi vestra en þá snjór og þekja á köflum; eins og í Hrútafirði og Miðfirði, í Langadal og yfir Þverárfjall en þar er éljagangur. Vegfarendur geta fylgst með færð á umferdin.is eða nálgast upplýsingar hjá Vegagerðinni í síma 1777.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir