Fyrsta vika Skólabúðanna á Reykjum að ljúka
Stutt er síðan samningar voru undirritaðir um það að UMFÍ tæki við rekstri Skólabúðanna að Reykjum í Hrútafirði. Fyrstu hóparnir komu á mánudaginn og er mikil ánægja með aðstöðuna en allt var sett á fullt í endurbætur á húsnæðinu þar sem UMFÍ og starfsmenn á vegum sveitarfélagsins Húnaþings vestra staðið í ströngu síðustu vikur. Búið er að mála allt, skipta út nær öllu innbúi og húsgögnum og ráða í allar stöður.
„Þetta er ánægjulegur dagur. Við fögnum því að að náðst hafi samkomulag við UMFÍ og erum spennt fyrir samstarfinu,‟ sagði Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, fráfarandi sveitarstjóri Húnaþings vestra, þegar skrifað var undir samstarfssamninginn þann 12. ágúst sl.
Sveitarstjórnin auglýsti í mars á þessu ári eftir samstarfsaðila um rekstur Skólabúðanna að Reykjum og sóttist UMFÍ eftir samstarfi við sveitarfélagið um rekstur þeirra. Lauk þá tveggja áratuga rekstri hjónanna Karls Örvarssonar og Halldóru Árnadóttur Skólabúðanna á Reykjum.
„Ég svíf hérna um í bongóblíðu, krökkunum finnst allt rosa gaman og kennararnir ánægðir með aðstöðuna,“ segir Guðný Stefanía Stefánsdóttir, kennari í 7. bekk Grunnskólans á Ísafirði sem er í hópi fyrstu gestanna sem komu í Skólabúðirnar á mánudag, í frétt á heimasíðu UMFÍ.
Húsnæðið rúmar 120 nemendur og munu koma af öllu landinu. Langflest herbergin rúma tvo til fjóra nemendur og hafa þau öll verið gerð upp, máluð og inn í þau keyptur nýr húsbúnaður og rúm.
Um Skólabúðir og Ungmennabúðir
UMFÍ starfrækir nú í fyrsta sinn Skólabúðir á Reykjum í Hrútafirði fyrir nemendur í 7. bekk grunnskóla af öllu landinu. Húsnæðið rúmar um 3.200 nemendur á hverju skólaári. Ungmennabúðir UMFÍ eru á Laugarvatni og eru þær fyrir nemendur 9. bekkjar. UMFÍ hefur verið með búðirnar frá árinu 2005. Þangað koma um 2.000 nemendahópar á hverju ári. Samtals munu því meira en 5.000 nemendur í tveimur árgöngum grunnskóla dvelja í viku senn á hverju skólaári í Skóla- og Ungmennabúðum á vegum UMFÍ.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.