Fundur aðgerðastjórnenda á Norðurlandi vestra
Aðgerðastjórnendur á Norðurlandi vestra hittust á Sauðárkróki seinnipart 5. maí síðastliðinn. Á fundinn mættu tuttugu manns frá björgunarsveitum, slökkviliðum, Rauða krossinum og lögreglu. Markmið fundarins var að efla samstarf á milli viðbragðsaðila á svæðinu.
Birgir Jónasson, lögreglustjóri á Norðurlandi vestra, setti fundinn. Hann ræddi um hlutverk viðbragðsaðila og samstarf þeirra. Þá ræddi hann um aðgerðastjórnunarstöð sem setja á upp á næstu mánuðum. Hún mun þjóna aðgerðastjórn í stærri verkefnum hjá Almannavörnum á Norðurlandi vestra.
Höskuldur Birkir Erlingsson, aðalvarðstjóri, tók næstur til máls og fjallaði um félagastuðning viðbragðsaðila. Þrír fulltrúar lögreglunnar á Norðurlandi vestra sóttu sér menntun í félagastuðningi og hafa nú haldið nokkra slíka fundi. Markmið fundanna er að halda utan um andlega líðan viðbragðsaðila og er reynslan af þessari vinnu góð.
Bjarni Kristófer Kristjánsson, formaður svæðisstjórnar á svæði 10, fjallaði um ýmis mál, þar á meðal SÁBF kerfið og stjórnskipulag innan aðgerða. Hann lagði svo fram spurningar til umræðu og voru þá meðal annars eftirfarandi mál rædd:
- Þorlákur Helgason, aðgerðastjórnandi hjá Rauða krossinum, sagði okkur frá endurskipulagningu/-skoðun á SÁBF stjórnkerfinu. Hann er fulltrúi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar í þeirri vinnu. Markmiðið er að skoða hvort núverandi kerfi henti eða hvort taka þurfi upp nýtt kerfi. Þessari vinnu á að vera lokið um áramótin næstu.
- Aðgerðastjórnunarnámskeið sem Slysavarnarfélagið Landsbjörg heldur sem og almenn umræða um menntunarmál
- Staðsetning á aðgerðastjórnunarstöð
Viðbragðsaðilarnir voru sammála um mikilvægi þess að hittast reglulega, taka æfingar saman, kenna hvert öðru, spjalla og kynnast. Ákveðið var að stofna rafrænan vettvang fyrir aðgerðastjórnendur til samræðna auk þess sem nokkurs konar stýrihópur var valinn til að tryggja áframhaldandi samstarf.
Þetta var góður fundur sem vonandi markar upphafið að enn betra og farsælla samstarfi á milli viðbragðsaðila á Norðurlandi vestra.
/Hafdís Eiinarsdóttir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.