Fjölgar í öllum landshlutum
Íbúum fjölgaði í öllum landshlutum frá 1. desember 2021 til 1. desember 2022 og samtals fjölgaði íbúum á landinu öllu um 11.319 á sama tíma sem er um 3,4%. Hlutfallslega mest hefur fjölgunin verið á Suðurnesjum eða um 6,6% sem er fjölgun um 1.927 íbúa. Íbúum á Suðurlandi fjölgaði um 4,3% á tímabilinu eða um 1.406 íbúa. Á Norðurland vestra fjölgaði um 28 manns.
Þrátt fyrir að fjölgun hafi átt sér stað í landshlutanum þá fækkaði í þremur sveitarfélögum af fimm á Norðurlandi vestra, mest í Húnabyggð þar sem fækkaði um 17 en á Skagaströnd og Skagabyggð fækkaði um sinn hvorn einstaklinginn. Í Húnaþing vestra fjölgaði um 29 manns sem gerir 2,4% og í Skagafirði fjölgaði um 18.
Ef skoðaðar eru tölur þrjú ár aftur í tímann hefur fjölgað í öllum sveitarfélögum á Norðurlandi vestra nema tveimur, Húnabyggð um 15 en þar búa nú 1.297 og um einn í Skagabyggð þar sem 89 manns búa. Mesta fjölgunin hefur orðið í Skagafirði á þessum þremur árum eða um 82 en þar eru 4.324 skráðir til heimilis, 49 fleiri eru í Húnaþingi vestra nú en 1. desember 2019 en þar teljast íbúar vera 1.259 og á Skagaströnd eru 483 skráðir til heimilis eða tíu fleiri en fyrir þremur árum.
Nánar um íbúafjölda á landinu má finna á heimasíðu Þjóðskrár en þangað eru ofangreindar tölur sóttar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.