Foreldraverðlaunin 2022

                                                                                                                                                                                                                                           Reykjavík, 19. maí 2022
                                                                                                                  Fréttatilkynning
Waldorfskólinn í Lækjarbotnum fær Foreldraverðlaunin 2022 Foreldraverðlaun Heimilis og skóla voru afhent í 27. sinn við hátíðlega athöfn í Safnahúsinu við Hverfisgötu 19. maí 2022. Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra ásamt Elizu Reid forsetafrú, ávörpuðu samkomuna og afhentu verðlaunin. Í ár hlaut Waldorfskólinn í Lækjarbotnum Foreldraverðlaun Heimilis og skóla fyrir verkefnið ,,Vinnudagar Lækjarbotna og gróðursetning plantna á skólasetningu“. Einnig var Hlín Magnúsdóttir útnefnd Dugnaðarforkur Heimilis og skóla 2022. Sérstök dómnefnd fór yfir allar tilnefningar líkt og vant er og valdi verðlaunahafa. Waldorfskólinn í Lækjarbotnum er einkarekinn skóli sem fer eftir uppeldisfræði Rudolf Steiners. Á hverju ári við skólasetningu skólans leggur skólinn til trjáplöntur sem eru gróðursettar af nemendum og foreldrum. Þannig hefur skólasamfélagið í Lækjarbotnum grætt upp Lækjarbotnaland í rúm 30 ár og sýnt hverjum nemanda og foreldri að allt skiptir máli þegar græða á upp landið. Veðurfar í Lækjarbotnum hefur breyst í tímans rás eftir því sem tjáplönturnar vaxa og dafna. Tveir vinnudagar eru teknir í verkið fyrir nemendur, foreldra og starfsfólk skólans. Mikil og góð samstaða myndast á þessum dögum, nemendur taka virkan þátt á þessum dögum undir handleiðslu foreldra, kennara og starfsfólks. Með samveru og samstarfi nemenda, foreldra og starfsfólks verða samskiptin opnari og traust eykst á milli aðila. Vinnudagar sem óhefðbundnir námsdagar eru mikilvægir til að börnin okkar beri virðingu fyrir sjálfum sér, umhverfi sínu og húsakosti. Það má til gamans nefna að það er vinnuhelgi í Lækjarbotnum næstkomandi laugardag kl 10-15. Þangað mæta nemendur, foreldrar og kennarar og vinna sameiginlega að svæði skólans. 

Dugnaðarforkur Heimilis og skóla árið
2022 er Hlín Magnúsdóttir, deildarstjóri sérkennslu í Helgafellsskóla, leik- og grunnskóla. Hlín heldur úti námssamfélaginu ,,Fjölbreyttar kennsluaðferðir” fyrir fjöruga krakka, sem samanstendur af vefsíðu, facebook-síðu og instagram-reikningi. Á þessum miðlum dreifir Hlín öllu því námsefni sem hún býr til sjálf. Góðu, ígrunduðu, áhugaverðu, einföldu, aðgengilegu, skemmtilegu, litríku og grípandi námsefni. Ekki nóg með að hún gefur alla þessa vinnu sínu þá er hún alltaf tilbúin til að aðstoða foreldra t.d. með því að gefa ráð, gefa námsefni, búa til námsefni eftir séróskum, veita stuðning, halda fyrirlestra, hvað sem er. Fjölbreytt kennsla er ekki bara atvinnan hennar og áhugamál, fjölbreytt kennsla er hugmyndafræði og lífssýn sem hún vill innleiða hjá öllum kennurum. Hlín hefur svo mikla trú á fjölbreyttum kennsluháttum að það er ekki hægt annað en að smitast af henni. Skoðið vefsíðuna www.fjolbreyttkennsla.is Við óskum vinningshöfum innilega til hamingju og þökkum kærlega fyrir þeirra starf í þágu skólasamfélagsins. Mikilvægt er að vekja athygli á því sem vel er gert í okkar samfélagi og ekki hvað síst nú þegar við þurfum að fást við ýmsar áskoranir meðal annars í foreldrastarfi þegar aðgangur foreldra að skólum hefur verið takmarkaður. Saman áorkum við miklu meiru en sundruð og Foreldraverðlaunin minna okkur á hverju samtakamátturinn fær áorkað.
Ef frekari upplýsinga er óskað er velkomið að hafa samband við Eydísi H. Njarðardóttur, formann dómnefndar Foreldraverðlaunanna 2022, eða Arnar Ævarsson, framkvæmdastjóra Heimilis og skóla.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir