Engin fuglaflensuhræ fundist á Norðurlandi vestra
Fyrir skömmu fór fram talning á helsingjum í Skagafirði og Húnavatnssýslunum á vegum Náttúrustofu Norðurlands vestra og fundust nálægt 45 þúsund fuglar. Að sögn Einars Þorleifssonar, náttúrufræðings hjá NNV, heppnaðist talningin afar vel en helsingjarnir gera hér stuttan stans á leið sinni til norðaustur Grænlands.
„Grænlands-helsingjastofninn er fremur lítill stofn sem er með vetrarstöðvar í Skotlandi, aðallega á viskí-eyjunni Islay. Menn höfðu nokkrar áhyggjur af að fuglarnir hefðu farið illa í vetur af fuglaflensu en það var ekki raunin. Raunar hef ég ekki fundið nein hræ fugla af fuglaflensu þrátt fyrir að hafa skoðað tugi þúsunda gæsa, álfta og anda í vor. Fáeinir sjaldgæfir flækingsfuglar hafa fundist þessa vikuna og í þeirri síðustu, Ljóshöfðaönd á Áshildarholtsvatni, hringdúfa í Vatnsdal og alaskagæs við Skagaströnd,“ segir Einar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.