Eldislaxinn rakinn til Patreksfjarðar
Í frétt á Húnahorninu segir að rekja megi eldislaxa sem veiðst hafa m.a. í Miðfjarðará, Víðidalsá og Vatnsdalsá til sex hænga sem notaðir voru til framleiðslu á seiðum sem sett voru út á eldissvæðis Arctic Sea Farm við Kvígindisdal í Patreksfirði haustið 2021. Tveir af þessum sex hængum voru einnig notaðir til framleiðslu á seiðum sem sett voru út á eldissvæði Arnarlax við Tjaldanes í Arnarfirði haustið 2021.
Þarna vitnar Húnahornið í frétt á vef MAST þar sem segir jafnframt að stofnuninni hafi borist upplýsingar um upprunagreiningu Hafrannsóknarstofnunar á 34 löxum sem sendir voru til greiningar og var hægt að rekja 26 þeirra til Patreksfjarðar.
„Arctic Sea Farm tilkynnti 20. ágúst síðastliðinn að tvö göt hefðu fundist á 2,5 metra dýpi í einni kví á eldissvæði fyrirtækisins við Kvígindisdal í Patreksfirði og óskaði MAST eftir því að slátrun hæfist samstundis í kvínni. Slátruninni lauk 29. ágúst og er áætlað að slátrun á eldissvæðinu öllu verði lokið um miðjan þennan mánuð.
Til Hafrannsóknarstofnunar eru enn að berast laxar, m.a. þeir sem háfaðir voru upp úr Blöndu í vikunni, sem sendir verða til erfðagreiningar. MAST mun veita frekari upplýsingar þegar niðurstöður liggja fyrir varðandi erfðagreiningu laxa og uppruna þeirra.“ segir í frétt Húnahornsins.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.