Eldislax fannst að líkindum í Blöndu
Sagt er frá því á rúv.is að Blanda hafi um helgina bæst í hóp þeirra laxveiðiáa þar sem nýgenginn eldislax hefur fundist upp á síðkastið. „Það vildi þannig til að Guðmundur Haukur Jakobsson fór að laxastiganum í Blöndu til að hreinsa teljara. Það þarf að gera þegar áin er á yfirfalli. Þegar hann lokaði teljarahólfinu var í honum lúsugur lax. Hann háfaði tvo þeirra upp, drap þá og þótti þeir bera öll merki eldislax,“ segir í fréttinni.
Þær ár þar sem grunur leikur á að eldislax hafi fundist í eru Laxá í Dölum, Hvolsá, Ósá í Patreksfirði, við Örlygshöfn, í Mjólká, Laugardalsá við Ísafjarðardjúp, og við Húnaflóla; Miðfjarðará, Víðidalsá, Hópið, Vatnsdalsá og Svartá. Guðmundur Haukur mun senda laxana sem hann fann í Blöndu til Hafrannsóknarstofnunar í dag en sextán laxar úr fyrrnefndum ám eru til rannsóknar fyrir. „Erfðaefni úr löxunum verður greint. Þá verður hægt að segja með vissu úr hvaða sjókvíaeldi laxinn er,“ segir í frétt rúv.is.
Feykir spurði Guðmund hvernig honum hefði liðið þegar hann fann meinta eldislaxa. „Meira hissa fyrst, svo pirraður og í restina ánægður með að hafa hitt á þá og náð þeim,“ sagði hann.
Laxveiðimenn, náttúrurverndarsinnar og fleiri hafa verið ötulir í að gagnrýna sjókvíaeldi og segja að það stefni villta íslenska laxastofninum í hættu og hann beri að vernda. Nýlega bárust fréttir af því að um 3.500 eldisfiskar hafi sloppið úr kvíum í Patreksfirði í ágúst síðastliðnum. Ólíklegt þykir að laxar úr Patreksfirði hafi náð að koma sér alla leið í ár í Húnavatnssýslu á þetta skömumm tíma en önnur skýring gæti verið að um sé að ræða laxa sem sluppu í Arnarfirði 2021.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.