Dalbæingar búast við köldum maí með einhverjum hretum
„Eins og fram kom í viðtali Síðdegisútvarps Rásar2 þriðjudaginn 26. apríl síðastliðinn, eftir aukafund klúbbsins, þá eigum við von á frekar hæglátum en köldum maí en þó með einhverjum hretum,“ segir í skeyti Veðurklúbbs Dalbæjar.
Telja spámenn að síðasta hret mánaðarins verði mest áberandi þó það verði væntanlega ekkert hræðilegt en hretin munu koma og þá líklegast mest yfir Norðurland.
„Þessi niðurstaða er núna að einhverju leyti byggð á draumum og tilfinningu klúbbfélaga en ekki síður á veðrinu fyrsta sunnudag sumars. En hann var nokkuð mildur um allt land en sólarlítill,“ segir um veðurfar maímánaðar í skeyti spámanna.
Viðtal Síðdegisútvarpsins má finna HÉR en það hefst u.þ.b. á tímanum 01:22:40.
Vetrarins fjötur fellur
þá fagnar geð.
Skólahurð aftur skellur
og skruddan með.
Sóleyjar vaxa í varpa
og vorsól skín.
Velkomin vertu, harpa,
með vorblóm þín.
Höf. Margrét Jónsdóttir
Bráðum fæðast lítil lömb,
leika sér og hoppa.
Með lítinn munn og litla vömb
lambagras þau kroppa.
Við skulum koma og klappa þeim
kvöld og bjartar nætur,
reka þau að húsum heim,
hvít með gula fætur.
Höf. Jóhannes úr Kötlum
Munum verða vör í maí
Við blíðu bæði og blástur
En hvorugt verður sí og æ
Ei verður hann sem skástur.
Höf. Bjór.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.