Burnirót í Huldulandi
Í Huldulandi í Skagafirði búa hjónin María Eymundsdóttir og Pálmi Jónsson og hafa þau undanfarin ár verið að prófa sig áfram í ræktun burnirótar sem nytjaplöntu. Burnirótin er gömul og vel þekkt lækningajurt og allmikið rannsökuð. Björn í Sauðlauksdal sagði í Grasnytjum að hún væri góð við ,,ógleði” en þá var átt við að manni væri ekki glatt í geði. Nútíma rannsóknir hafa staðfest að hún getur haft jákvæð áhrif á andlega líðan.
Plantan kallast á fræðimálinu Rhodiola Rosea og er fjölær þykkblöðungur sem myndar rótarhnýði. Hún er hægvaxta og er vinsæl bæði hjá ferfætlingum og mann- fólkinu og á víða undir högg að sækja. Fyrir skemmstu var hún sett á válista hjá CITES (Convention on International Trade in Endangered Species of Wild Fauna and Flora) og flutningur á óunnum plöntum gerður óleyfilegur á milli landa. Burnirótin finnst í klettum, hólmum og friðlöndum þar sem hún fær frið fyrir beit en það hefur ekki stöðvað tvífætlingana sem grafa upp ræturnar. Eftirspurn á heimsvísu eftir burnirót er mun meiri en fram- boðið. „Okkur fannst því liggja í augum uppi að reyna að rækta hana svo nýta mætti á sjálfbæran hátt,“ segja hjónin. „Við höfðum spurnir af félagsskap í Kanada og Alaska sem ræktar burnirót og vinnur úr henni. Í framhaldi af því höfðum við samband við Dr. Petra Illig sem kom burnirótaræktuninni af stað í Alaska. Hún tók mjög vel í það að fá okkur í heimsókn og fengum við styrk úr Frumkvöðlasjóði Íslands- banka og Uppbyggingasjóði Norðurlands vestra til að fara í námsferð til Alaska. Þau hafa ræktað burnirót allt frá 2009 og eru byrjuð að vinna úr henni afurðir og selja og er því komin töluverð reynsla þar,“ segir María.
„Okkur var mjög vel tekið og fórum við í margar heimsóknir til bænda og skoðuðum aðstæður, aðferðir og allt sem þau þurfa að glíma við. Þarna er veruleikinn annar en hér heima. Enda horfðu þau vantrúuð á okkur þegar við sögðum að Íslendingar væru að reyna að rækta skóg en ekki ryðja hann eins og þau. Það kom í raun á óvart að upplifa hve ótrúlega lítill hefðbundinn landbúnaður er stundaður í þessu víðfeðma fylki. Burni- rótin er þeim því kærkomin og verðmæt afurð,“ bæta hjónin við.
María og Pálmi lærðu mikið á þessari ferð og geta sloppið við að gera mörg tímafrek og kostnaðarsöm mistök sem hefðu annars verið partur af nýsköpuninni. Einnig fengu þau að sjá ræktunaraðferðir sem geta stytt ræktunartímann um allt að tvö ár og verður farið í að prufa þær næsta vor og sumar. Hjónin í Huldulandi virðast fá ótakmarkaðar hugmyndir að skemmtilegum og spennandi verkefnum og nýsköpun. Það verður spennandi að fylgjast áfram með því sem þau eru að fást við í komandi framtíð.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.