Búin að reyna í mörg ár að sannfæra manninn minn um að ég kunni ekki að prjóna fingravettlinga
Sonja býr á Sauðárkróki með eiginmanni sínum honum Magnúsi Hinrikssyni og saman eiga þau þrjú börn, Hugrúnu Líf, Selmu Björt og Viktor Darra og tvö barnabörn þau Aran Leví og Amalíu Eldey.
Hve lengi hefur þú stundað hannyrðir?Ég byrjaði að prjóna um tvítugt og hef prjónað með einhverjum hléum síðan.
Hvaða handavinna þykir þér skemmtilegust? Mér finnst skemmtilegast að prjóna og eiginlega bara hvað sem er nema fingravettlinga sem ég er búin að reyna í mörg ár að sannfæra manninn minn um að ég kunni ekki að prjóna.
Hverju ertu að vinna að um þessar mundir? Undanfarið hef ég verið að prjóna úr garnafgöngum alls konar vettlinga og sokka en er að byrja á kjól á litlu ömmustúlkuna mína.
Hvar fékkstu hugmyndina? Mér fannst alveg tilvalið að prjóna kjól af síðunni ammaloppa.is handa Amalíu.
Hvaða handverk sem þú hefur unnið ertu ánægðust með? Ég held að ég sé ánægðust með skírnarkjólinn sem ég prjónaði fyrir nærri 30 árum síðan.
Feykir þakkar Sonju kærlega fyrir að svara Prjónaþættinum.
Áður birst í tbl. 43 Feykis 2021.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.