Blundar í mörgum Blönduósingum að upphefja gamla bæinn til fyrri dýrðar :: Bjarni Gaukur um uppbyggingu gamla bæjarins á Blönduósi

Bjarni Gaukur Sigurðsson og Elísabet Jónsdóttir ásamt börnum sínum Bríeti og Þór Óla en  Olgu Elísu vantar á myndina. Myndir aðsendar utan mynd af Blönduósi en hana tók Óli Arnar.
Bjarni Gaukur Sigurðsson og Elísabet Jónsdóttir ásamt börnum sínum Bríeti og Þór Óla en Olgu Elísu vantar á myndina. Myndir aðsendar utan mynd af Blönduósi en hana tók Óli Arnar.

Það stendur mikið til á Blönduósi en félagarnir og heimamennirnir Reyni Grétarsson og Bjarni Gaukur Sigurðsson hafa, undir merkjum InfoCapital, fest kaup á húsum í gamla bænum. Verkefnið er metnaðarfullt og til þess ætlast að blása lífi í Blönduósbæ og hrífa heimamenn með í uppbygginguna. Feykir hafði samband við Bjarna Gauk og forvitnaðist um málið.

Vorsprettur á Blönduósi fyrir örfáum árum. 

Bjarni Gaukur er 47 ára gamall, þriggja barna faðir; Bríet (f. 2003), Þór Óli (f. 2006) og Olga Elísa (f. 2012), og maður Elísabetar Jónsdóttur, Betu. Hún er hönnuður og menningarstjóri sem starfar í dag sem upplifunar- og viðburðarstjóri í Elliðaárdal þar sem hún vinnur ötullega að því að gera þá náttúruperlu að aðgengilegum fólkvangi fyrir íbúa Reykjavíkur og aðra gesti.

Bjarni er fæddur í Reykjavík en að mestu ættaður af Austurfjörðum og úr Austur-Skaftafellssýslu en þriggja ára gamall flutti hann til Blönduóss og eyddi þar mótunarárunum með stuttri millilendingu í Dallas, Texas og á Egilsstöðum þar til hann fór í Menntaskólann á Akureyri. Að menntaskóla loknum nam hann tölvunarfræði við Háskóla Íslands en frá aldarmótum starfaði hann að mestu erlendis, bjó í Hollandi í átta ár þar sem hann var einn stofnenda og stjórnenda hugbúnaðarfyrirtækis þar í landi.

„Við fjölskyldan, þá með tvö börn, fluttum heim til Íslands árið 2009 en ég hef engu að síður starfað erlendis að stóru leyti og stundum verið með annan fótinn utan landsteinanna.

Ég hef því komið víða við en hef alltaf skilgreint mig fyrst og síðast sem Blönduósing,“ segir hann en þar lagði hann stund á flestallar íþróttir sem þar voru í boði á þeim tíma. „Mín verður þó kannski helst minnst á æskuslóðunum fyrir fótbolta og frjálsar íþróttir. Á Blönduósi var ég einnig nemandi í tónlistarskólanum og þó ég teljist nú varla til duglegustu eða hæfileikaríkustu tónlistarmanna sem Blönduós hefur alið þá hefur tónlistaráhuginn og almennt áhugi á menningu alltaf fylgt mér og ég á mér nokkuð stórt hliðarsjálf sem tengist því áhugasviði. Það er lista- og menningarrýmið Mengi sem við Elísabet stofnuðum ásamt góðum vinum í miðborg Reykjavíkur.

Bjarni með heiðursverðlaun Norræna tónskáldaráðsins.

Mengi hefur öðlast sess sem mikilvægur vettvangur fyrir nýsköpun og tilraunir í listum, þá sérstaklega tónlist,“ segir Bjarni en svo skemmtilega vill til að Mengi hlaut heiðursverðlaun Norræna tónskáldaráðsins fyrir starf sitt í gegnum tíðina nú á haustmánuðum.

Foreldrar Bjarna voru þau Olga Óla Bjarnadóttir (f. 1942, d. 2021) og Sigurður Eymundsson (f. 1943, d. 2016) og hann yngstur þriggja barna þeirra. Bróðir hans er Eymundur (f. 1962), rafmagnsverkfræðingur í Reykjavík og Hanna Birna systir (f. 1973), umhverfisverkfræðingur í Kaupmannahöfn.

„Foreldrar mínir fluttu á Blönduós árið 1978 þegar pabbi tók við stöðu umdæmisstjóra RARIK á Norðvesturlandi og sinnti hann því starfi til ársins 1990 þegar hann tók við starfi umdæmisstjóra RARIK á Austurlandi með aðsetur á Egilsstöðum. Mamma starfaði við ýmis störf á Blönduósi en í henni blundaði ætíð frumkvöðull og til að mynda stofnaði hún blóma- og gjafavöruverslun á Blönduósi. Á Egilsstöðum keyptu þau fyrsta hús sem byggt var á Egilsstöðum utan Egilsstaðabúsins, Nielsenhúsið, og gerðu það myndarlega upp. Þar starfræktu þau kaffihús, Café Nielsen, sem var eitt fyrsta kaffihús á landsbyggðinni. Í dag er húsið eitt helsta kennileiti Egilsstaða og hýsir hinn rómaða veitingarstað Nielsen. Við hliðina á því stendur enn í dag Gistihús Olgu sem foreldrar mínir opnuðu einnig á sínum tíma.“ Tengdaforeldrar Bjarna eru þau Jón Þór Sverrisson, yfirlæknir á Akureyri, og Guðríður Elísa Vigfúsdóttir, sagnfræðingur.

Svo gott sem ósnortinn bæjarkjarni

Bjarni segir árið hafa verið viðburðarríkt að mörgu leyti en rúsínan í pylsuendanum sé uppbyggingin á Blönduósi sem InfoCapital tekur nú þátt í. Sjálfur kom hann inn í fyrirtækið InfoCapital sem hann segir hafa verið mjög skemmtilegt og jákvætt skref fyrir hann, bæði persónulega og atvinnulega. „Það eru mikil fríðindi að fá að vinna með góðu fólki og í áhugaverðum verkefnum og ég er þakklátur fyrir að starfa í slíku umhverfi. InfoCapital er fjárfestingarfélag sem sinnir ýmsum fjárfestingum. Má í því sambandi nefna fjártæknilausnir eins og CreditInfo og Aurbjörgu, fjarskipti og miðlar en við erum stærsti hluthafi Sýnar og ýmislegt annað á sviði nýsköpunar þar sem tækni er notuð til þess að bæta daglegt líf einstaklinga og til að búa til skilvirkara umhverfi fyrir fyrirtæki.“

Félagarnir Bjarni Gaukur og Reynir á íbúafundi á
Blönduósi á dögunum.

Aðspurður um Blönduóssverkefnið segir Bjarni það vera mjög spennandi verkefni fyrir Blönduósinga eins og hann og Reyni Finndal, félaga hans. „Við Reynir höfum þekkst í langan tíma en með hléum þó. Þrátt fyrir að þrjú ár skilji okkur að þá urðum við snemma góðir vinir og nörduðumst saman í tölvuleikjum og tefldum mikið. Ég man sérstaklega hvað Reynir var mikill aðdáandi söngvarans Prince á sínum tíma og ég hef ekki tölu á hversu oft við horfðum á Purple Rain á VHS heima hjá honum á Melabrautinni. Við stunduðum báðir nám við Menntaskólann á Akureyri og þar var einnig Dalvíkingurinn Hákon Stefánsson, sem er framkvæmdastjóri InfoCapital í dag en þeir Reynir hafa starfað saman um árabil.

Að menntaskóla loknum skildu leiðir okkar í alllangan tíma, eiginlega allt þar til við hittumst fyrir tilviljun í fyrrahaust, þá báðir á ákveðnum tímamótum í lífi okkar. Það voru fagnaðarfundir og þegar við fórum að ræða saman komu merkilega mikil líkindi ferla okkar í atvinnulífinu, báðir höfðum við stofnað fyrirtæki, verið í viðskiptum út um allan heim og að endingu selt fyrirtækin. Úr varð að við ákváðum að rugla saman reitum og starfa saman að þeim fjölbreyttu verkefnum sem við nú sinnum.“

Bjarni segist helst vilja lýsa samstarfinu á þann hátt að hann, Reynir og Hákon séu einhvers konar blanda af líkum og ólíkum karakterum þar sem mikið traust ríkir og hugmyndaflæðið sé óheft. „Við höfum allir öðlast mikla reynslu af rekstri og uppbyggingu fyrirtækja innanlands sem og erlendis og reynum að nýta þá reynslu í þeim verkefnum sem við tökum okkur fyrir hendur. Þó að samstarf mitt við þá félaga sé tiltölulega nýtt af nálinni er eins og það hafi alla tíð verið til staðar. Ég held að ef maður kynnist einstaklingi á mótunartíma hans og þekkir jarðveginn sem það sprettur úr þá hefur maður dýpri skilning á persónunni. Það gerir öll samskipti auðveldari og samstarf traustara.“

Bjarni segir verkefnið vera svolítið óhefðbundið fyrir þá félaga, a.m.k. í samanburði við önnur sem þeir hafa tekið að sér í gegnum tíðina, sem sé að vissu leyti svolítið rómantískt, en þeir félagar hafa fulla trú á því að það séu mikil viðskiptatækifæri fólgin í því.

„Húnabyggð og nærsveitir eru einhvern veginn hálf ósýnilegar á landakortinu þegar kemur að ferðaþjónustu og okkur finnst það illskiljanlegt því við vitum, eins og allir sem þar hafa eytt einhverjum hluta ævinnar, hvað svæðið hefur upp á að bjóða og hversu mikil orka býr í fólkinu sem þar býr.

Gamli bærinn býr yfir sögu sem á
fullt erindi við sérhvern Íslending.

Gamli bærinn á Blönduósi er mjög sérstakur staður. Það er einstakt á Íslandi og þó víðar væri leitað að til sé svo gott sem ósnortinn bæjarkjarni sem eitt sinn hýsti alla þjónustu, iðnað og innviði sem einkenndi samfélag í blóma. Við fylgjumst með öðrum sveitarfélögum á Íslandi keppast við að búa til slíka bæjarkjarna með ærnum tilkostnaði og sögufölsun, leyfi ég mér að segja, á meðan á Blönduósi drýpur sagan af hverju strái. Hvert strá, hver þúfa, hver nagli í gamla bænum býr yfir sögu sem á erindi við sérhvern Íslending sem og alla sem sækja landið heim og við viljum taka þátt í því að gera þeirri sögu skil. Í mjög grófum dráttum skilgreinum við verkefnið út frá þeim sjónarhóli.

Við höfum fest kaup á nokkrum fasteignum í gamla bænum; hótelinu, tveim hæðum í Helgafelli, sem er við hliðina á hótelinu, Krútt brauðgerðinni og nokkrum íbúðarhúsum og okkar plan er að smám saman byggja upp vettvang sem býður upp á góða aðstöðu fyrir þá sem vilja sækja Blönduós heim, umvafða góðum mat og annarri menningu sem og afþreyingu. Nú er ég ekki að segja að Blönduós sé í dag ekki áhugaverður áningarstaður og það er margt jákvætt sem hefur verið gert síðustu ár en það eru of fáir sem vita af öllu því frábæra sem héraðið hefur upp á að bjóða.“

Vinna með skemmtilegu fólki

Þeir félagar horfa á verkefnið sem langtímaverkefni og haga sínum áætlunum í samræmi við það. Byrjað er að gera hótelið upp og segir Bjarni það gert í samræmi við ákveðna strategíu sem sett hefur verið saman með aðstoð nokkurra reynslubolta í bransanum. „Við viljum svo byggja ofan á það með frekari valkostum, t.d. nýta Krúttið í viðburðarhald og fjölbreyttari matarmenningu. Þetta stefnum við á að gera í nokkrum fösum því eins og ég segi þá er þetta langtímaverkefni sem við stefnum á að fylgja eftir næstu árin.

Í síðustu viku voru haldnir hugmyndafundir í
Reykjavík og á Blönduósi vegna deiliskipulags
í gamla bænum á Blönduósi.

Í gamla bænum erum við fyrst og fremst að líta til svokallaðrar visthæfrar ferðamennsku fremur en fjöldaferðamennsku, þ.e.a.s. við viljum okkar gestir heimsæki okkur vegna raunverulegs áhuga á svæðinu og að það eyði meiri tíma en bara að rúlla í gegn. Þannig teljum við að við getum búið til eftirsóknarverðari upplifun sem er í sátt við samfélagið fremur en að hrúga inn túristum sem bara strauja í gegn og meðtaka jafnvel ekki fegurð héraðsins.“

Bjarni segir hluta verkefnisins felast í því að taka þátt í því að skilgreina hlutverk Húnabyggðar, og jafnvel alls Norðvesturlands, í ferðaþjónustu Íslands.

„Ferðaþjónusta er ein af stoðum íslensks atvinnulífs, helsti vaxtarbroddur útflutnings og mikill vöxtur í kortunum en Norðvesturland er svo gott sem ósýnilegt í stóru myndinni þrátt fyrir að vera í alfaraleið. Því til rökstuðnings get ég nefnt að gistirými á Norðurlandi vestra er um 2% af heildargistirými á landsvísu, skv. tölum ferðamálastofu. Það er í raun kappsmál fyrir alla íslenska ferðaþjónustu að hún dreifist betur en hún gerir í dag til að sverta síður niður orðspori landsins og þannig forsenda fyrir því að plön um allt að 75% aukningu ferðamanna næstu þrjú ár gangi upp. Þar liggja mikil tækifæri fyrir svæðið í heild. Á sama tíma viljum við verja lífsgæði fólksins sem hér býr og það gerum við með því að eiga samtal við sveitarfélagið, aðra hagsmunaaðila í ferðaþjónustu og í raun samfélagið allt um hlutverk héraðsins í þessu samhengi. Að búa til nokkurs konar samfélagslegan sáttmála sem hægt er að standa við.“

Góð viðskiptahugmynd á ferðinni

Bjarni telur að það hafi blundað í mörgum Blönduósingum, bæði þeim sem búa þar í dag sem og brottfluttum, að upphefja gamla bæinn til fyrri dýrðar og þeir alls ekki verið þeir sem hrintu því af stað þar sem á svæðinu eru aðilar sem þegar hafa rutt brautina. „Hótelið var til sölu og eftir talsverða umhugsun ákváðum við að láta slag standa og staldra ekki bara við það heldur hugsa þetta í stærra samhengi fyrir gamla bæinn í heild sinni. Það má þó ekki skilja það þannig að það sé okkar hugmynd að við leggjum hann undir okkur. Þvert í móti er það okkar von að þarna verði blómlegur og fjölbreyttur rekstur sem er á höndum mismunandi aðila sem deila ástríðu fyrir gamla bænum og Húnabyggð í heild,“ segir Bjarni, sannfærður um að þarna sé góð viðskiptahugmynd á ferðinni og bætir við að tímasetning sé alltaf mikilvæg breyta.

„Við Reynir hófum samstarf þegar farið var að glitta í endalok heimsfaraldursins og þar af leiðandi endurfæðingar ferðamannaiðnaðarins sem auðvitað spilar rullu líka. Eins og ég sagði hér áður þá höfum við fulla trú á því að þetta sé góð viðskiptahugmynd og rúsínan í pylsuendanum er sennilega að okkur grunaði að þetta yrði gaman og að við myndum vinna með skemmtilegu fólki við að gera eitthvað fyrir æskulóðirnar sem okkur þykir svo vænt um.“

Ótrúlegustu hlutir mögulegir

Bjarni er sannfærður um að í Blönduósingum búi mikil orka en eitt sinn var helsta baráttumálið að virkja Blöndu en þeir félagar vilji virkja Blönduósinga. „Ég tel að það séu fjöldamörg tækifæri fyrir hugmynda- og atorkuríkt fólk á svæðinu öllu. Við erum að vona að þetta verkefni blási fólki svolítinn eldmóð í brjóst og fólk þori að stíga fram með hugmyndir sínar og framkvæmi þær. Það er t.d. almennur skortur á afþreyingu. Fjölbreyttir menningarviðburðir væru lyftistöng og svo mætti lengi telja. Það væri líka mjög gaman ef verkefnið stuðlaði að samtakamætti í samfélaginu. Ótrúlegustu hlutir eru mögulegir þegar fólk tekur höndum saman, hugsar til langs tíma, laðar að og hlúir að þekkingu. Vonandi sjáum við brottflutta Blönduósinga eyða meiri tíma á gömlum heimaslóðum, jafnvel að einhverjir þeirra flytji aftur heim. Hver veit?“

Þar sem jólin eru á næsta leiti var Bjarni spurður út í jólahald fjölskyldunnar og segir hann að í gegnum tíðina hafi fjölskyldan yfirleitt eytt jólunum með foreldrum annars hvors þeirra Betu, verið á Akureyri annað hvort á jólum eða um áramót og Reykjavík eða Egilsstöðum þegar foreldrar hans bjuggu þar, hina hátíðina. Nú ætli þau hins vegar að vera heima hjá sér í Reykjavík með krökkunum. „Kannski ég reyni að selja fjölskyldunni hugmyndina um áramót á Blönduósi í framtíðinni. Mig grunar samt að þeir brenni ekki skip á áramótabrennunni lengur eins og gert var stundum þegar ég bjó þar.“

Enga rjúpu á jólunum, takk

Og í lokin ein skemmtileg mynd af
kappanum sem finna má í gömlum Feyki.

Og fyrst jólin eru að nálgast er ekki úr vegi að forvitnast um uppáhalds jólamatinn hjá Bjarna Gauk og fjölskyldu. „Ég er ekki alinn upp við miklar jólamathefðir, nema þá hangikjöt á jóladag, svo ég hef ýmislegt prófað. Eitt sinn krafði ég mömmu og pabba um rjúpu því allir á Blönduósi voru með rjúpur. Bað aldrei aftur um það. En ætli ég myndi ekki segja kalkúnn með góðri sveppasósu og brúnuðum kartöflum eins og tengdó gerir. Eða þá hreindýr af Héraði eins og mamma bauð stundum upp á. Það er bæði algjört lostæti.“

Þegar Bjarni er inntur eftir því hvort hann vilji koma einhverju á framfæri við lesendur berast böndin að þeim hræðilegu fréttum sem bárust frá Blönduósi í ágúst og snertu alla landsmenn. „Um leið og ég sendi mínar dýpstu samúðarkveðjur til allra sem eiga um sárt að binda þá langar mig einnig að segja hversu stoltur ég er af viðbrögðum fólksins á Blönduósi og samheldninni á meðal þeirra. Það er heiður að fá að telja sig til slíks samfélags.“

Viðtalið má einnig finna í JólaFeyki 2022 í styttri útgáfu.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir