Bjartsýn á að september verði áfram mildur og góður :: Veðurklúbbur Dalbæjar

Hausta fer í hlíðunum, hitinn kannski að lækka. Samt byrjum ei á skíðunum, þó skaflar taki að stækka. Höf. Bjór. Aðsend mynd.
Hausta fer í hlíðunum, hitinn kannski að lækka. Samt byrjum ei á skíðunum, þó skaflar taki að stækka. Höf. Bjór. Aðsend mynd.

Höfuðdagurinn 29. ágúst bar þó nokkuð á góma á fundi Veðurklúbbs Dalbæjar, sem að þessu sinni var haldinn 6. september sl., en hann mun hafa eitthvað að segja um veðurfar komandi vikna.

En eins og segir á vísindavefnum:
„Höfuðdagurinn er samkvæmt gildandi tímatali 29. ágúst. Þann dag á Heródes konungur að hafa látið eftir konu sinni að Jóhannes skírari skyldi hálshöggvinn. Vitað er til að minningardagur um aftökuna hafi þekkst þegar á 5. öld bæði í Samaríu og Gallíu. Það var hins vegar páfastóll sem ákvað dagsetninguna 29. ágúst á 7. öld og nefndi daginn Decollatio Johannis sem merkir „afhöfðun Jóhannesar“. Latneska nafnorðið decollatio er leitt af sögninni decollare „hálshöggva“, en collum á latínu er notað um háls á manni.

Sú þjóðtrú hefur lifað lengi að veður breytist á höfuðdag og haldist þannig næstu þrjár vikur. Árið 1700 var tímatali breytt. Þá fluttist „gamli“ höfuðdagurinn yfir á 9. september og trúðu ýmsir á veðrabreytingar þann dag. Nú er dagurinn ávallt tengdur 29. ágúst. Trúnni á höfuðdaginn fylgdi bæði von og ótti. Mikilvægt þótti að hafa lokið heyskap fyrir höfuðdag ef tíð var góð en einnig lifðu margir í þeirri von að úr rættist við höfuðdag ef sumarið hafði verið vætusamt.“

Og þar sem síðastliðinn höfuðdagur var nokkuð mildur og góður hér fyrir norðan þá eru spámenn Dalbæjar bjartsýnir á að september verði áfram mildur og góður. „Um aðra landshluta þorum við ekki að spá að þessu sinni,“ segir í skeyti þeirra til fjölmiðla.

Í ágúst slá menn engið
og börnin tína ber.
Í september fer söngfugl
og sumarljóminn þver.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir