Benedikt búálfur hjá Leikfélagi Sauðárkróks

Benedikt búálfur.MYND KRISTJÁN BLÆR
Benedikt búálfur.MYND KRISTJÁN BLÆR

Leikfélag Sauðárkróks frumsýndi á föstudaginn var söngleikinn um Benedikt búálf. Benedikt búálf þekkja vel flestir, um er að ræða einn allra þekktasta barnasöngleik þjóðarinnar og skemmtilegt ævintýri eftir Ólaf Gunnar Guðlaugsson með grípandi lögum og tónlist sem Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson gerði og söngtextar eftir Andreu Gylfadóttir og Karl ÁgústÚlfsson.


Sýningin var fyrst sett upp á Íslandi árið 2002 í leikstjórn Gunnars Gunnsteinssonar. Síðan hefur hún margoft verið sett upp út um allt land, þar á meðal hjá Leikfélagi Akureyrar. Nú er komið að því að Leikfélag Sauðárkróks takist á við þetta stóra verkefni og hafa þau verið síðasta mánuðinn að æfa og undirbúa sýningar.


Verkið fjallar á ævintýralegan hátt um baráttu góðs og ills. Dídí mannabarn fer með Benedikt búálfi til Álfheima þar sem uppnám ríkir vegna þess að dökkálfarnir, undir stjórn Sölvars súra, eru búnir að ræna Tóta tannálfi sem hefur í för með sér afdrífaríkar afleiðingar.

Leikstjóri sýningarinnar er Gunnar Björn Guðmundsson. Hann er margreyndur leikstjóri sem hefur leikstýrt á fjórða tug leiksýninga víða um land. Eins hefur hann verið iðinn við kvikmyndagerð en hann leikstýrði Áramótaskaupinu árin 2009-2012. Ásamt því leikstýrði hann kvikmyndunum Astrópíu, Gauragangi og Ömmu Hófí. Gunnar Björn hefuraðallega fengist við grín og barnaefni á sínum langa leikstjóraferli.


„Uppselt var á sýningar helgarinnar og miðasala hefur gengið mjög vel, uppselt er í kvöld og miðar fara hratt og ég hvet alla til að tryggja sér miða sem fyrst, “ segir Sigurlaug Dóra Ingimundardóttir, formaður Leikfélags Sauðárkróks. Bendir síðan á að miðasalan sé inná Tix.is eða í síma 8499439.
Leikfélag Sauðárkróks er eitt elsta áhugamannaleikfélag landsins og hefur í mörg ár sýnt leiksýningar við góðan orðstír. Það verður engin svikinn á að kíkja í álfaheim hjá Benedikt búálfi og vinum hans á Króknum. Sýningin hefur fengið frábæra dóma, lesa má leikhúsrýni frá Jóhönnu S. Ingólfsdóttur HÉR.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir