Auðveldar okkur vinnuna, segir Guðmundur Haukur um kaup ríkisins á stjórnsýsluhúsnæði Blönduósbæjar
Dómsmálaráðherra hefur, með vilyrði fjármálaráðherra, ákveðið að ganga til viðræðna við Blönduósbæ um kaup á stjórnsýsluhúsnæði bæjarins að Hnjúkabyggð 33 á Blönduósi. Á heimasíðu Stjórnarráðsins segir að með kaupum á fasteigninni verði hægt að bæta nýtingu og auka hagræði í rekstri en ríkið á fyrir 1. og 3. hæð hússins sem er nýtt undir starfsemi sýslumannsins á Norðurlandi vestra og lögreglunnar.
Ennfremur kemur fram að með sameiningu Blönduósbæjar og Húnavatnshrepps hafi verið lagt upp með að skrifstofur hins sameinaða sveitarfélags yrðu á nýjum stað.
„Um langa tíð hefur verið sóst eftir eflingu sýslumannsembættisins og innheimtumiðstöðvarinnar hér á Blönduósi og eru þetta því verulega ánægjulegar fréttir fyrir okkur,“ segir Guðmundur Haukur Jakobsson, forseti sveitarstjórnar Blönduósbæjar. „Ekki bara það að við sjáum fram á aukningu starfa á vegum hins opinbera heldur byggir þetta líka undir það sem við höfum unnið að í sameiningarviðræðum sveitarfélaganna Blönduósbæjar og Húnavatnshrepps með að ráðhúsi verði fundinn nýr staður á Blönduósi fyrir nýtt sameinað sveitarfélag.“
Guðmundur segir það ánægjulegt þegar áfram miðar í því sem unnið hefur verið að. „Þetta skref dómsmálaráðherra mun auðvelda okkur vinnuna við að koma ráðhúsi á nýjan stað við upphaf nýs sveitarfélags, þar sem áhersla verði lögð á að koma stjórnsýslunni og velferðarsviðinu undir sama þak.“
Í tilkynningu dómsmálaráðuneytisins kemur fram að kaup ríkisins á húsnæðinu falli vel að áformum dómsmálaráðherra um að styrkja starfsemi sýslumanna undir einni þjónustustofnun þannig að úr verði nútímalegar stjórnsýslustöðvar ríkis í heimabyggð, sem veita framúrskarandi þjónustu, óháð staðsetningu borgarans eða stjórnsýslustöðvarinnar.
„Með breyttu skipulagi verður hægara um vik að fela starfsstöðvum ný verkefni hins opinbera sem snúa að þjónustu við almenning á landinu öllu. Samhliða er tækifæri til að bæta starfsaðstöðu lögreglunnar á Blönduósi,“ segir á stjornarradid.is.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.