Amber Christina Monroe hlaut önnur verðlaun í nýsköpunarhraðli fyrir konur

Amber Christina Monroe. Mynd af Facebooksíðu Isponica.
Amber Christina Monroe. Mynd af Facebooksíðu Isponica.

Frumkvöðlaverkefni sem snúa að umhverfissjónarmiðum, samgöngum, sjálfbærri ræktun, aðstoð við listamenn, umhverfisvæna verslun og veflausn sem snýr að forvörnum gegn ofbeldi urðu í efstu sætunum í nýsköpunarhraðli fyrir konur sem Háskóli Íslands stendur að í samstarfi við bandaríska sendiráðið á Íslandi. Hraðlinum lauk formlega sl. föstudag og voru vegleg peningaverðlaun að verðmæti 2,2 milljóna króna veitt vinningshöfunum. Isponica á Hólum í Hjaltadal hlaut önnur verðlaun í einstaklingsflokki.

Á heimasíðu Háskóla Íslands segir að konurnar geti nýtt verðlaunin t.a.m. til að koma vöru sinni eða þjónustu á markað eða taka sín fyrstu skref á þá leið. Í heild bárust hraðlinum umsóknir um 114 viðskiptahugmyndir en 37 urðu fyrir valinu.

Konurnar hafa notið leiðsagnar mentoranna Hólmfríðar Sveinsdóttur, stofnanda og framkvæmdastjóra Mergur Ráðgjöf og nýráðins rektors Háskólans á Hólum, Fidu Abu Libdeh, forstjóra og stofnanda GeoSilica og Söndru Mjallar Jónsdóttur Buch, framkvæmdastjóra Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands. Að auki hafa gestaleiðbeinendur víðsvegar að úr atvinnulífinu verið með fyrirlestra og aðstoðað við hin ýmsu mál sem huga þarf að til að koma hugmynd áfram, stofnun fyrirtækja og markaðssetningu svo eitthvað sé nefnt. Þátttakendur luku einning Dreambuilder, vefnámskeiði á vegum Arizona State University.

Útskrift og verðlaunaafhending fór fram í Hátíðasal Háskóla Íslands að viðstöddum háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, Michelle Yerkin, starfandi sendiherra Bandaríkjanna og Chargé d´Affaires bandaríska sendiráðsins á Íslandi, og Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands.

Verðlaunum var skipt upp eftir því hvort verkefnið væri einstaklingsverkefni eða teymisverkefni og að auki voru veitt verðlaun fyrir bestu lyftukynninguna í formi myndbands.

Eins og fram kemur í inngangi hlaut viðskiptahugmyndin Isponica á Hólum í Hjaltadal önnur verðlaun í einstaklingsflokki að verðmæti 300.000 krónur. Amber Christina Monroe stendur að baki hugmyndinni en Isponica er gróðrarstöð fyrir sprotagrænmeti þar sem afgangsvatn frá fiskikörum er notað til að rækta grænmeti í hillum.

Fyrstu verðlaun í þeim flokki fóru hins vegar til Berglindar Baldursdóttur fyrir viðskiptahugmyndina Paladino sem gengur út á að þróa hugbúnað sem heldur utan um vottun á bakgrunni fólks sem vill vinna með börnum og skjólstæðingum í viðkvæmum hópum.

Sjá má aðra verðlauna hafa HÉR

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir