Aldrei of seint að gefast upp :: Áskorendapenninn Viktoría Blöndal Blönduósingur
...var það fyrsta sem ég hugsaði þegar ástkær vinkona mín, Anna Margrét, skoraði á mig að vera áskorendapenni í Feyki. Ég man þá tíð þegar hún skoraði á mig að drekka heila flösku af gull kampavíni í skottinu á jeppa á Skagaströnd en nú er skorað á mig til að skrifa í héraðsblaðið Feyki.
En flettir einhver blaði lengur? Já, ég auðvitað! Eða sko, ég les bara minningargreinar og stel svo orðaruglinu úr Mogganum. Þegar fólk spyr hvaðan ég sé kemur yfirleitt alltaf hik á mig, hvaðan er ég? Hvaðan er fólk yfir höfuð og almennt? Mér líður eins og ég sé bara komin af sjálfri mér. Er það skrítið? Já ætli það sé ekki smá skrítið að segja.
Það er mikilvægt að sjá börn eins og þau eru, ekki reyna að breyta þeim og setja þau í form og box. Það var nokkuð ljóst frá upphafi að ég var ekki mikið fyrir form og box og einhvers konar regluverk. Þó að ég sé fædd á níunni þá fékk ég samt að blómstra í skólanum, ég var t.d. með geggjaðan kennara, hún hafði hendur eins og sandpappír og leit út eins henni væri drullusama um hvað öllum fannst um hana. Ég hitti hana í leikhúsi um daginn þar sem hún faðmaði mig fast og innilega.
Mér þykir alltaf innilega vænt um hana. Svo varð kraftaverk þegar ég fór á unglingastig og besti kennari alheimsins tók á móti unglings mér og leiddi mig (í orðsins fyllstu merkingu) í gegnum árin sem mótuðu mig að eilífu. Hún sýndi mér bókmenntir, kenndi mér að lesa og taka inn það sem ég sá og vildi, hún sýndi mér að það væri ekki allt svart og hvítt heldur væru alls konar litir og allir væru mikilvægir, hvað sem þeir gera en það sem skiptir máli er að vera heiðarleg manneskja og vera góður við fólkið sitt. Hún er gullhjarta.
Nú er ég með BA gráðu frá Listaháskóla Íslands, búin að gefa út eina bók og önnur á leiðinni. Það er ótrúlegt að fá frelsið og að lifa við það að skapa. Draumur minn er t.d. að rætast þar sem ég fæ að gera þátt á Rás 1 (Rás 1 er náttúrulega kjarni Íslands og beinagrind samfélagsins) um Guðrúnu frá Lundi sem fluttur verður í jóladagskrá rásarinnar. Svo fékk ég listamannalaun til að gera sviðsverk um fótbolta.
Ekki vera löt - allir í Hvöt (er þetta áróður?). Við í sviðslistahópnum Alltaf í boltanum munum frumsýna verkið, Óbærilegur léttleiki knattspyrnunnar í mars á næsta ári. Akkúrat í þessum skrifuðu orðum er ég líka líka að leggja lokapunkt á nýju bókina mína sem mun bera nafnið: Aldrei of seint að gefast upp.
Það eru ágætis lokaorð og nú skora ég á hjartans frænda minn, Rúnar Örn, bónda á Síðu. Við gætum ekki verið ólíkari en mikið þykir mér vænt um hann og hans fólk. Rúnari leist hreinlega ekkert á það að fá þennan penna í hendur en ég veit að hann skorast ekki undan.
Áður birst í 28. tbl. Feykis
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.