Aðventuhátíð í Hólaneskirkju á Skagaströnd og bóklestur í Bjarmanesi
Skagstrendingar eru byrjaðir að jólast. Í kvöld, miðvikudaginn 30. nóvember kl. 18:00, verður aðventuhátíð Bergsstaða-, Bólstaðarhlíðar, Hofs-, Holtastaða-, Höfða- og Höskuldsstaðasóknar í Hólaneskirkju á Skagaströnd. Við það tilefni flytur Kirkjukór Hólaneskirkju jólasöngva og leiðir safnaðarsöng undir stjórn Hugrúnar Sifjar Hallgrímsdóttur organista og kórstjóra.
Fermingardrengir vorsins 2023 taka þátt í stundinni með lestri og bænum. NTT og TTT börn 9-12 ára flytja helgileik og syngja með Sunnudagaskólabörnunum.
Þorgerður Þóra Hlynsdóttir okkar yndislega Gigga verður með hugleiðingu um aðventuna og jólin. Bryndís Valbjarnardóttir prestur leiðir stundina. Allir eru hjartanlega velkomnir að eiga saman hátíðlega stund í ljósi aðventunnar.
Á morgun, 1. desember, verður síðan upplestrarkvöld í Bjarmanesi á Skagaströnd þar sem kafað verður í jólabókaflóðið og lesið úr nokkrum völdum bókum.
Ævintýri á aðventunni
Þá má geta þess að í gærmorgun heimsótti sviðslistahópurinn Hnoðri í norðri nemendur á yngsta stigi í Höfðaskóla á Skagaströnd. Þau léku og sungu jólasýninguna Ævintýri á aðventunni. Verkið er nýr gleðilegur jólasöngleikur sem hópurinn setti saman og er sniðinn að börnum á 6-10 ára aldri en ætti að koma öllum aldurshópum í jólaskap.
„Í sýningunni skarast skáldskapur, ópera, söngleikur og gamanleikhús á stórskemmtilegan hátt. Höfundur og tónskáld er Þórunn Guðmundsdóttir, en aðalsmerki hennar eru frábærlega fyndnir og hnittnir textar með orðaleikjum auk þess sem tónlist hennar er mjög aðgengileg og yndisleg áheyrnar," segir í frétt á vef Höfðaskóla.
Heimildir: Skagaströnd.is og heimasíða Höfðaskóla
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.