Að girnast uxa eða asna náunga síns :: Leiðari Feykis

Það þótti tíðindum sæta þegar Jesús kom ríðandi á asna inn í borgina Jerúsalem forðum daga. Mynd af Netinu.
Það þótti tíðindum sæta þegar Jesús kom ríðandi á asna inn í borgina Jerúsalem forðum daga. Mynd af Netinu.

Ég brosti í kampinn þegar ég las frétt Vísis um það að nú væru börnum í Vídalínskirkju í Garðabæ ekki lengur kennd boðorðin tíu eins og venja hefur verið á Íslandi. Það síðasta var klippt af svo boðorðin eru þar núna einungis níu.

Samkvæmt fræðunum eru boðorðin tíu listi yfir trúarlegar og siðferðilegar reglur sem samkvæmt Biblíu kristinna manna og Torah Gyðinga voru opinberuð af Guði fyrir Móses á fjallinu Sínaí og Móses hjó á tvær steintöflur. Á Wikipedia segir að þau séu grundvallaratriði í kristinni trú og gyðingdómi. Boðorðin séu sett upp sem samningur Guðs og þjóðar hans og eiga sér hliðstæðu í fornsögulegum samningum og lagabálkum stórkonunga við undirkonunga.

Hvað sem segja má um boðorðin tíu sem Guð gyðinga opinberaði fyrir árþúsundum þegar fólk leit heiminn öðrum augum en nú, má að mínu mati má alveg uppfæra þau og hafa nútímalegri þó annað standist vel tímans tönn. Þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki drýgja hór og þú skalt ekki stela eða bera ljúgvitni gegn náunga þínum eru ágætis heilræði. Spurning bara hvort unga fólkið hafi nægan málskilning fyrir þessar orðsendingar. Hver drýgir hór í dag?

Breyskleiki mannsins hefur líklega lítið breyst í gegnum aldirnar og hefur Jahve þótt ástæða til að reyna að siða lýðinn örlítið til. „Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns,“ stendur fyllilega fyrir sínu. Eflaust má dást að húsum eða íbúðum annarra líkt og Stöð2 hefur gert í sérþáttum en ekki girnast húsið, heyrið það fermingarbörn!

Þriðja boðorðið hvetur lýðinn til að halda hvíldardaginn heilagan og er líklega fyrsta skrefið í átt að bættum kjörum verkamanna, sem á þessum tímum nefndust ambáttir eða þrælar og þá er komið að tíunda boðorðinu sem fermingarbörnin í Garðabæ þurfa ekki að læra: „Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, ekki þræl hans eða ambátt, ekki uxa hans eða asna né nokkuð það sem náungi þinn á.“

Þetta minnir mig á konu eina sem ég vann með fyrir löngu en boðorðin tíu voru rædd í einni pásunni og hvernig gengi fyrir viðstadda að halda þau. Hún sagðist hafa brotið þau öll nema það tíunda því hún girntist ekki konu náunga síns.

Góðar stundir!
Páll Friðriksson,
ritstjóri

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir