Grettir Bar & Lounge opnaður á Hótel Laugarbakka
Um miðjan júní var Grettir Bar & Lounge opnaður á Hótel Laugarbakka. Áður hafði rýmið sem hýsir barinn, gamla íþróttahúsið á Laugarbakka, einungis verið nýtt yfir vetrarmánuðina fyrir ráðstefnur, árshátíðir, fundi, jólahlaðborð og mismunandi viðburði.
,,Í vor útbjuggum við setustofu fyrir hótelgesti, heimafólk og þá sem vilja koma og eiga notalega stund hjá okkur í Grettissalnum,” segja Hildur Ýr Arnarsdóttir og Örn Arnarsson, eigendur Hótelsins.
Búið er að skipta salnum upp, setja upp notaleg húsgögn, nýr og flottur kokteilaseðill kominn í notkun. Á hótelinu er einnig veitingastaður sem nefnist Bakki Restaurant.
,,Það er gaman að segja frá því að við erum farin að flytja inn okkar eigin léttvín til þess að krydda vínseðilinn okkar á Bakka Restaurant og Grettisbar. Okkur langaði til þess að bjóða upp á gæða hvítvín frá Mosel, en einnig rauðvín og nokkrar tegundir yndislegra freyðivína. Við hvetjum alla til að koma og smakka þessi vín. Við breyttum vínseðinum okkar núna í vor og er óhætt að segja að hann gæti komið á óvart,” segja þau.
Happy hour er alla daga frá 17:00 - 23:00 á Grettir bar & lounge og á Bakka Restaurant var nýr og breyttur matseðill kynntur til sögunnar í vor.
,,Matseðillinn hefur hreinlega slegið í gegn og fengið ótrúlega góðar viðtökur og umsagnir gestanna okkar. Lögð er áhersla á íslenskt hráefni og allt sem við fáum úr héraði. Bakki restaurant er opinn alla daga frá kl. 18:00 til 22:00 og er opinn öllum, bæði hótelgestum og öllum öðrum sem sækjast eftir notalegri stund í fallegu umhverfi,” segja Hildur og Örn að lokum.
/SMH
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.