Vonast til að afköst hitaveitunnar á Sauðárkróki aukist um 35-40%
„Borun hefur gengið vel en holan er staðsett 15 metrum vestan við holu BM-10 í Borgarmýrum,“ sagði Gunnar Björn Rögnvaldsson, verkefnastjóri Skagafjarðarveitna, þegar Feykir spurði hann hvernig borun eftir heitu vatni hefði gengið á Sauðárkróki.
Hann segir borholuna bera einkennið BM-14 en búið er að fóðra holuna með 10“ stálfóðringu niður á 194 metra. „Svo er boruð opin hola þar fyrir neðan niður á um 800 metra, þvermál í opnu holunni er 97/8“ tommur fyrir neðan stálfóðringuna,“ segir Gunnar Björn.
Hvað er reiknað með að afköst hitaveitunnar aukist mikið með tilkomu nýrrar holu? „Vonast er eftir að afköst veitunnar aukist um 35-40% ef aðgerðin heppnast vel.“
Hefur verið vöntun á heitu vatni á svæðinu? „Já, það hefur verið vöntun á heitu vatni undanfarin ár vegna stækkandi byggðar og stækkun og fjölgun fyrirtækja. Vonandi verður nægjanlegt vatn úr þessari holu til þess að tryggja okkur næstu árin. Til framtíðar þá þarf að fara í enn frekari rannsóknir á svæðinu í kringum virkjunarsvæðið á Sauðárkróki til að kanna hvar sé heppilegast að bora næstu vinnsluholu sem er nauðsynlegt fyrir veitukerfið.“
Hvernig er staðan í vatnsmálum almennt í Skagafirði? „Staðan er almennt góð, fyrir utan Sauðárkróksveituna.“
Það hafa staðið yfir framkvæmdir í Varmahlíð, hvað hefur verið gert? „Þar erum við að endurvirkja borholu við Norðurbrún 9B í Varmahlíð VH-03 og við vonumst til að geta byrjað að dæla úr þeirri holu um og upp úr miðjum október við vonumst til að þessi hola geti skilað okkur 35-40 l/sek. af 90°C heitu vatni. Svo er búið að endurnýja allar lagnir í Laugaveginum í Varmahlíð og gatan endurbyggð,“ segir Gunnar Björn og bætir við að stefnt sé að því að leggja nýtt malbik á götuna núna í september.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.