Verkefni Byggðasafns Skagfirðinga og Háskólans á Hólum hlutu NORA styrki

NORA-nefndin og starfsfólk skrifstofunnar (sekretariatsins). Annar frá vinstri er fráfarandi formaður NORA, Kristján Þ. Halldórsson og við hlið hans stendur Sigríður K. Þorgrímsdóttir, tengiliður NORA á Íslandi, en lengst t.h. er Halla Nolsøe nýr framkvæmdastjóri NORA. Myndin er tekin fyrir framan Nordens Hus í Kaupmannahöfn, en þar sótti hópurinn fræðslufundi hjá Norrænu ráðherranefndinni. MYND AF SÍÐU BYGGÐASTOFNUNAR
NORA-nefndin og starfsfólk skrifstofunnar (sekretariatsins). Annar frá vinstri er fráfarandi formaður NORA, Kristján Þ. Halldórsson og við hlið hans stendur Sigríður K. Þorgrímsdóttir, tengiliður NORA á Íslandi, en lengst t.h. er Halla Nolsøe nýr framkvæmdastjóri NORA. Myndin er tekin fyrir framan Nordens Hus í Kaupmannahöfn, en þar sótti hópurinn fræðslufundi hjá Norrænu ráðherranefndinni. MYND AF SÍÐU BYGGÐASTOFNUNAR

Íslendingar taka þátt í níu af þeim tíu verkefnum sem NORA, Norræna Atlantssamstarfið, ákvað að styrkja á síðasta fundi sínum fyrir jól. Styrkirnir nema samtals um 66 milljónum íslenskra króna, 3,3 milljónum danskra. Alls bárust 19 umsóknir að þessu sinni og eru flest þeirra verkefna sem hlutu styrk nú framhaldsverkefni og hafa áður fengið styrk. Íslendingar hafa verið iðnir við að sækja um styrki til Nora og meðal þeirra sem hlutu styrk að þessu sinni voru Háskólinn á Hólum og Byggðasafn Skagfirðinga.

Verkefnið sem Byggðasafn Skagfirðinga leiðir kallast Vikingenetværk og unge og fékk einnig styrk í fyrra. Útgangspunktur í sjálfbærri ferðaþjónustu. Lokaafurð er stafræn handbók, samstarfsnet ungmenna og auknir möguleikar á störfum.

Háskólinn á Hólum er meðal íslenskra þátttakenda í verkefninu Græsning og lokalmad. Verkefnið hlaut styrk í fyrra og í ár er um framhald að ræða. Það snýst um staðbundin matvæli byggð á sjálfbærni varðandi beit, þar sem notast er við náttúrulegri áburð.

Norræna Atlantssamstarfið

Verkefnin tengjast öll byggðaáætlunum landanna með einum eða öðrum hætti en Norræna Atlantssamstarfið (NORA) eru samtök fjögurra landa og fellur starfsemin undir byggðastefnu Norrænu Ráðherranefndarinnar. Starfssvæði NORA nær til Grænlands, Íslands, Færeyja og strandhéraða Noregs (níu norskra strandfylka frá Finnmörku í norðri til Rogalands í suðri svo og Svalbarða). Landfræðileg lega, sameiginleg einkenni, viðfangsefni, saga, stofnanir svo og menningarleg bönd tengja NORA-löndin.

NORA styrkir samstarf á svæðinu með það að markmiði að gera Norðuratlantssvæðið að öflugu norrænu svæði, sem einkennist af sterkri sjálfbærri efnahagsþróun. Það er meðal annars gert með því að styðja samstarf í atvinnulífi og rannsókna- ognþróunarstarf þvert á landamæri.NORA er fjármagnað af Norrænu ráðherranefndinni ásamt framlaginallra fjögurra landanna sem að samstarfinu standa. Í NORA-nefndinni eru tólf fulltrúar, þrír frá hverjunlandi á NORA-svæðinu. Einn frá hverju landi situr í framkvæmdastjórn NORA.

Auk Háskólans á Hólum og Byggðasafns Skagfirðinga hlutu eftirtaldir aðilar styrk frá NORA; Fisktækniskóli Íslands, Rorum ehf., ISF (Icelandic Sustainable Fisheries), Algalíf ehf., Þingvallaþjóðgarður og Svæðisgarðurinn á Snæfellsnesi og Orkustofnun. Nánar má lesa um þessi verkefni  á síðu Byggðastofnunar og þar er einnig að finna upplýsingar um hvernig skal bera sig að við að sækja um styrki en næsti umsóknarfrestur er 4. mars 2024. >

Heimild: Byggðastofnun

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir