Vel heppnað menningarkvöld NFNV
Hið árlega menningarkvöld nemendafélags Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, fór fram í íþróttahúsinu á Sauðárkróki, föstudaginn, 17. nóvember sl. Menningarkvöldið heppnaðist mjög vel en um 200 manns sóttu viðburðinn. Bodypaint keppnin var á sínum stað ásamt tónlistaratriðum en einnig var bryddað upp á nýjungum.
Kynnar kvöldsins voru þeir Egill Ploder og Arnar Þór Ólafsson, fjölmiðlamenn með meiru, en þeir héldu uppi stemmningunni á milli atriða. Dagskráin var mjög fjölbreytt, tónlistaratriði frá Heiðmari Gunnarssyni sigurvegara söngvakeppni NFNV frá því í fyrra og einnig kom Heiðdís Pála Áskelsdóttir fram en hún vann söngvakeppni Félagsmiðstöðvarinnar Friðar árið 2022.
Sex atriði tóku þátt í BodyPaint keppninni en veitt voru verðlaun fyrir frumlegasta atriðið og besta atriðið. Verðlaun fyrir frumlegasta atriðrið hlaut ,,The Siren“. Módel hópsins var Svanbjört Hrund og aðrir þátttakendur voru Ása María, Arna, Bil, Ísabella og Matti. Verðlaun fyrir besta atriðið hlaut ,,Skógarlíf “, módel hópsins var Sigríður Hrafnhildur (Lilla) en aðrir þátttakendur voru Arndís Katla, Agnes Nótt, Emelía Björk, Emma Karen, Elísa Bríet, Sunneva Dís og Steinunn Daníela. Bryddað var upp á þeirri nýjung í ár að halda keppni í varasöng, eða á ensku LipSync. Tvö lið öttu kappi en þau voru CandyZol sem tóku lag Reykjavíkurdætra, Tökum af stað, og Niceguys sem tóku lagið Krumla með strákabandinu Iceguys. Mikið var lagt upp úr búningum og dansi í atriðunum.
Að sögn Einars Ísfjörðs Sigurpálssonar, formanns nemendafélagsins, var viðburðurinn vel heppnaður. ,,Já, þetta var frábært kvöld, fullt af fólki, flott atriði og kynnarnir fóru á kostum.“ Það var ball í Ljósheimum eftir menningarkvöldið þar sem Dillsveit Dósa, Arnar og Egill komu fram og var það vel sótt. ,,Ég vil svo þakka þeim sem komu fram á Menningarkvöldinu fyrir, fyrirtækjunum sem styrktu okkur og þeim sem mættu kærlega fyrir“ sagði Einar að lokum.
Myndirnar tók Siggi Photography.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.