Útgáfuhóf í Gránu í tilefni af útkomu Skagfirðingabókar 43
Skagfirðingabók, rit Sögufélags Skagfirðinga fyrir árið 2024, er komin út og verður senn dreift til áskrifenda. Ákveðið er að næstkomandi sunnudag, þann 14. apríl, verði haldið útgáfuhóf í Gránu við Aðalgötuna á Sauðárkróki. Þar verður opið hús frá kl. 14 þar sem bókin verður kynnt og nokkrir af höfundum munu koma þar fram og spjalla við gesti.
Í tilefni af útgáfu bókarinnar er Hjalti Pálsson, einn ritstjórnarmanna, í viðtali í Feyki vikunnar sem kemur út á morgun. Hjalti segir bókina vera af hefðbundinni stærð, 200 blaðsíður með um það bil 160 ljósmyndum. „Í henni eru tíu greinar eftir jafnmarga höfunda. Höfuðgreinin er samin af Jóni Árna Friðjónssyni í Smiðsgerði og fjallar um tengdaföður hans, Guðmund Márusson byggingameistara í Varmahlíð. Sigurður Haraldsson á Grófargili skrifar um Varmahlíðarárin þegar hann rak þar hótelið ásamt fjölskyldu sinni á árunum 1961-1969. Sigtryggur Björnsson frá Framnesi skrifar um minnisvarða Stephans G. á Arnarstapa, rekur byggingarsögu hans og aðdraganda. Hannes Pétursson skáld ritar um komu Sveins Björnssonar forseta Íslands til Sauðárkróks og Skagafjarðar sumarið 1944 og sýnir okkur áður óbirtar ljósmyndir af þeim atburði sem faðir hans Pétur Hannesson tók við það tækifæri. Hjalti Pálsson hefur tekið saman alllanga ritsmíð um Flugpóst Akrahrepps, Lárus Lárusson, sem var kynjakvistur af meiði Bólu-Hjálmars, uppalinn Húnvetningur en átti heima síðustu 20 árin í Skagafirði, lengst af í Djúpadal. Þá hefur Sölvi Sveinsson ritað minningar Friðbjörns G. Jónssonar söngvara sem hann nefnir Uppvöxtur á Gamla-spítala og Jón Kristjánsson frá Óslandi skráir Minningar úr Gránu. Auk þess eru smáþættir: Nokkur orð um börn Hallgríms Péturssonar eftir séra Ólaf Hallgrímsson á Mælifelli. Frásögn Rósu dóttur Stephans G. um komu hennar til Íslands í tilefni afhjúpunar minnisvarðans og loks „Fram í afrétt“, minningar Steinars Þórðarsonar frá Háleggsstöðum um afar sérstæðar tófuveiðar í Deildardalsafrétt.“
Nánar er rætt við Hjalta í 13. tölublaði Feykis sem kemur út á morgun.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.