Upplýsingasíðan, Vegir okkar allra, orðin aðgengileg

Forsíða heimasíðunnar. Snippuð mynd.
Forsíða heimasíðunnar. Snippuð mynd.

Nú á dögunum var sett í loftið ný upplýsingasíða undir yfirskriftinni Vegir okkar allra en þessi vefur var settur upp af stjórnvöldum til að útskýra hvernig þau ætla að fjármagna vegakerfið sem verður svo innleitt í skrefum á næstu árum. Stjórnvöld stefna að því að aðlaga fjármögnunarkerfið að orkuskiptum og minnkandi notkun jarðefnaeldsneytis með upptöku kílómetragjalds í stað olíu- og bensíngjalda en fjármála- og efnahagsráðherra mælti fyrir nýju frumvarpi á Alþingi um innleiðingu nýs kerfis. Í því er markmiðið að tryggja fjármögnun vegakerfisins til framtíðar og jafnræði í gjaldtöku óháð orkugjafa ökutækja því ljóst er að núverandi kerfi mun renna sitt skeið á enda og tekjur af því munu minnka verulega samhliða orkuskiptum. 

Á síðunni segir að vegakerfið er að stórum hluta fjármagnað með olíu- og bensíngjöldum sem greidd eru fyrir notkun dísil- og bensínbíla af vegakerfinu þegar dælt er á bílinn. Fyrir meðalbensínbíl nema þau um 187 þúsund krónum á ári eða 7 þúsund krónur á mánuði. Með fjölgun rafmagns- og tengiltvinnbíla, sem greiða lítið eða ekkert fyrir notkun á vegakerfinu, og með fjölgun sparneytnari bíla hafa þessar tekjur dregist verulega saman. Ljóst er að þetta kerfi er að renna sitt skeið á enda og tekjur af því munu hverfa þegar orkuskiptum er náð. Fjármögnun vegasamgangna hefur því verið að veikjast á sama tíma og umferð hefur aukist. Þess vegna er nauðsynlegt að taka upp nýtt kerfi sem tryggir jafnræði í gjaldtöku og fjármögnun óháð orkugjöfum.

Gert er ráð fyrir að aðlögunin fari fram í tveimur skrefum og er hægt að lesa nánar um það og nýja kerfið á nýju heimasíðunni www.vegirokkarallra.is og um að gera að kynna sér þetta ferli nánar þar. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir