Torfarfurinn - Varðveisla byggingarhandverks
Málþingið Torfarfurinn - Varðveisla byggingarhandverks verður í Kakalaskála í Skagafirði þann 4. september næstkomandi. Umfjöllunarefnið er varðveisla byggingarhandverks þar sem torfarfurinn verður í fyrirrúmi. Dagskrá málþingsins má sjá meðfylgjandi og skráning er hafin.
Málþingið fer fram á milli tveggja námskeiða Fornverkaskólans en þátttakendur námskeiðanna að þessu sinni verða einstaklingar sem okkur þótti gullið tækifæri að stefna saman vegna starfa þeirra sem tengjast varðveislu byggingarhandverks, bæði innanlands og utan, m.a. frá Þjóðminjasafni Íslands, Minjastofnun Íslands, Húsverndarstofu og einnig handverksmenn (kennarar og nemendur) frá Institutt for Arkitektur og teknologi í NTNU (Norges Teknisk Naturvitenskapelige Universitet).
Hverju má fólk eiga von á sem mætir í Kakalaskála? „Á málþinginu verður fjölbreytt dagskrá þar sem fjallað verður um torfbyggingar, handverksþekkingu og varðveislu þessa menningararfs í víðu samhengi. Greint verður frá niðurstöðum rannsókna á skagfirskum torfhúsum og viðhorfi til torfbygginga almennt, um varðveislu á Húsasafni Þjóðminjasafnsins og mikilvægi varðveislu handverksþekkingar. Starfsemi Húsverndarstofu verður kynnt og það verða jafnframt erindi um torf sem byggingarefni í Noregi og Skotlandi og komið verður inn á framtíð torfsins. Í lokin verða pallborðsumræður um starfsumhverfi og framtíð handverksþekkingar.“
Hvað er svona sérstakt við torfhúsið og hvað er svona heillandi? „Torf sem byggingarefni hefur fylgt íslensku þjóðinni allt frá landnámi og hefur veitt okkur skjól frá veðri og vindum í harðbýlu landi en torfið hefur góða einangrunareiginleika. Torf var langalgengasta byggingarefnið fram á 20. öld en torfhúsum fækkaði hratt eftir aldamótin 1900 og nú er svo komið að aðeins fáeinum húsum er enn viðhaldið. Þó húsakosturinn hafi tekið breytingum í gegnum aldirnar er byggingarefnið og handverkið að miklu leyti hið sama. En torf var ekki bara notað á Íslandi heldur var það þekkt víðar um heim og má þar til að mynda nefna Skotland þar sem torf var notað í töluverðum mæli allt fram á 19. öld. En þar eins og víðast hvar annarsstaðar í heiminum hefur efnis- og handverksþekkingin glatast. Það er því mikilvægt að við Íslendingar stöndum vörð um torfhúsin okkar og handverksþekkinguna því hér búum við að einstökum menningararfi á heimsmælikvarða,“ segir Bryndís að lokum.
Málþingið fer fram á ensku. Aðgangur á málþingið er ókeypis og það opið öllum áhugasömum. Farið er fram á skráningu, sem fer fram á heimasíðu safnsins fyrir 1. september:
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.