Þjóðbúningafræðsla fyrir safnafólk

Myndir aðsendar.
Myndir aðsendar.

Söfnin þrjú á Norðurlandi vestra, þ.e. Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi, Byggðasafn Skagfirðinga í Glaumbæ og Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna á Reykjum í Hrútafirði, hafa undanfarin ár lagt áherslu á aukið samstarf og fræðslu sín á milli. Söfnin sem öll eru viðurkennd söfn, hafa m.a. staðið fyrir nokkrum námskeiðum fyrir safnafólk sem hafa nýst vel í safnastarfinu og hefur styrkur úr aukaúthlutun Safnasjóðs skipt þar sköpun.

Í þetta sinn varð að ráði að fá fræðslu um íslenska búninga og þróun þeirra til þjóðbúninga. Hjónin Hildur Rosenkjær, sagnfræðingur og klæðskeri og Ásmundur Kristjánsson, gullsmiður sem er sérfróður um búningaskart komu í Heimilisiðnaðarsafnið þann 28. nóvember síðastliðinn og héldu fyrirlestur/námskeið um fatnað og búningaskart. Var sagan rakin frá byrjun 18. aldar allt frá faldbúningi til skautbúnings á 19. öld og saga peysufata og upphlutar frá 18. öld til okkar daga.

Fjallað var m.a. um þróun húfu við peysuföt og upphlut, mismunandi gerðir af skarti, ásamt þróun karlbúninga og í lokin voru safngripir skoðaðir. Mikil ánægja ríkti með námskeiðið sem var bæði sérlega fróðlegt en líka skemmtilegt.

Þátttakendur voru frá Heimilisiðnaðarsafninu, Byggðasafni Húnvetninga og Strandamanna, Byggðasafni Skagfirðinga í Glaumbæ og Safnasafninu.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir