Sveitarfélagið Skagaströnd eitt af "Sveitarfélögum ársins" 2023
Reiknuð var heildareinkunn út frá níu þáttum sem spurt var um í könnuninni en það voru stjórnun, starfsandi, launakjör, vinnuskilyrði, sveigjanleiki vinnu, sjálfstæði í starfi, ímynd vinnustaðar, ánægja og stolt og jafnrétti. Borið saman við niðurstöður könnunarinnar í fyrra fengu launakjörin lakari einkunn í ár en aukin ánægja var með sveigjanleika vinnu og jafnrétti. Mest er óánægja með launakjör á leikskólunum, sér í lagi hjá leikskólaliðum. Niðurstöðurnar leiða t.d. líka í ljós óánægju með hljóðvist hjá starfsfólki leikskóla og íþróttamannvirkja, matar- og kaffiaðstöðu telur starfsfólk í öryggis- og eftirlitsstofnunum ábótavant og sömuleiðis sýnir könnunin að veikleiki er í samskiptum og stjórnun í öldrunarþjónustu.
Alls uppfyllti 21 sveitarfélag skilyrði fyrir niðurstöðum til að komast á lista sveitarfélaga með heildareinkunn. Það er fjölgun um sex sveitarfélög frá fyrra ári. Líkt og í fyrra fékk Grímsnes- og Grafningshreppur flest stig í heildarniðurstöðunum, eða 4.403. Þar á eftir kom Bláskógabyggð með 4.349 stig, þá Sveitarfélagið Vogar með 4.236 stig og í fjórða sæti Sveitarfélagið Skagaströnd með 4.217 stig. Grímsnes- og Grafningshreppur fékk hæstu einkunnir allra fyrir launakjör, vinnuskilyrði, jafnrétti og deildi efsta sætinu hvað varðar þáttinn sjálfstæði í starfi með Bláskógabyggð. Bláskógabyggð var auk þess með hæstu einkunn allra sveitarfélaganna fyrir stjórnun, starfsanda og ímynd. Sveitarfélagið Vogar fékk hæstu einkunn allra sveitarfélaganna í þáttunum sveigjanleiki vinnu og ánægja og stolt.
Sem fyrr segir stóðu tíu bæjarstarfsmannafélög að könnuninni í samstarfi við Gallup. Þau eru: Starfsmannafélag Mosfellsbæjar, Starfsmannafélag Vestmannaeyja, Starfsmannafélag Garðabæjar, Starfsmannafélag Suðurnesja, Starfsmannafélag Kópavogs, Starfsmannafélag Hafnarfjarðar, Kjölur stéttarfélag starfsmanna í almannaþjónustu, FOSS stéttarfélag í almannaþjónustu, Starfsmannafélag Húsavíkur og Félag opinberra starfsmanna á Austurlandi.
/Fréttatilkynning
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.