Strákarnir heimsækja Keflavík í VÍS bikarnum
Dregið var í 16 liða úrslit VÍS bikarsins í körfubolta nú í hádeginu. Bæði kvenna- og karlalið Tindastóls voru í pottunum og fengu bæði útileiki – sennilega eitthvað gallaðir pottar. Strákarnir fengu nokkuð strembinn mótherja, nefnilega lið Keflavíkur en liðin mættust einmitt í úrslitum bikarsins síðasta vetur. Kvennaliðið heimsækir hins vegar Suðurlandið.
Það var auðvitað skrifað í skýin að Stólastúlkur færu í heimsókn til fyrrverandi fyrirliða liðsins, Evu Rúnar Dagsdóttur, sem spilar með liði Selfoss. Leikirnir í 16 liða úrslitum kvenna fara fram dagana 7.-8. desember. Tveir stórleikir verða í umferðinni en Valur og Haukar mætast sem og nágrannarnir Njarðvík og Keflavík.
Hjá körlunum er auk leiks Keflavíkur og Tindastóls stórleikur á milli Vals og Grindavíkur sem háðu baráttu um Íslandsmeistaratitilinn í vor. Leikirnir í 16 liða úrslitum fara fram 8. og 9. desember.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.