Morgunblaðið ekki dreift í fyrramálið á Norðurlandi vestra

Mynd af vedur.is
Mynd af vedur.is

Það hefur ekki farið framhjá neinum að á Norðurlandi vestra hefur verið slæmt veður í dag og í kvöld. Samkvæmt veðurspánni þá á þetta að ganga niður í nótt en tekur sig svo upp aftur annað kvöld og á að standa yfir til kl. 17 á jóladag.  Mbl sagði frá því fyrr í kvöld að Holtavörðuheiði væri lokuð sökum þess að tvær rútur væru þar í vandræðum og að hugsanlega væru einhverjir fólksbílar líka í vandræðum. Björgunarsveitir úr Húnavatnssýslunum og uppsveitum Borgarfjarðar voru kallaðar út til að aðstoða fólk og vill lögreglan á Norðurlandi vestra brýna fyrir ökumönnum að leggja ekki af stað án þess að kanna fyrst aðstæðu á vef Vegagerðarinnar. 

Þessi lokun á Holtavörðuheiði gerir það að verkum að Morgunblaðið á ekki eftir að skila sér til áskrifenda í fyrramálið, 24. desember, á Hvammstanga, Blönduósi, Skagaströnd og á Sauðárkróki eins og áætlað var. Blaðið verður því borið út með blaðinu sem kemur út á föstudaginn, eða þann 27. desember. Beðist er velvirðingar á þessum óþægindum og er áskrifendum bent á rafrænu áskriftina sína. 

Á Facebooksíðu Lögreglunnar á Norðurlandi vestra segir að Holtavörðuheiði sé LOKUР
Aðgerðum er lokið á Holtavörðuheiði. Á sjötta tug vegfarenda var komið í húsaskjól í Hrútafirði og á Laugarbakka. Lögreglan vill beina því til vegfarenda að heiðin er lokuð og verður vegurinn um hana ekki opnaður fyrr en í fyrramálið. Þá ætti að opnast smá glufa fyrir þá sem nauðsynlega þurfa að komast á milli. Hins vegar þá er veðurspá slæm fyrir næstu daga og má búast við því að vegir lokist aftur upp úr hádegi. Verum því ekki á ferðinni nema að brýna nauðsyn beri til.
 

Á veður.is segir að á Norðurlandi vestra verði suðvestan stormur þann 23 des. frá kl. 18:00 – 24. des. kl. 01:00. Suðvestan 18-25 m/s og vindhviður staðbundið yfir 35 m/s. Fólk er hvatt til að tryggja lausamuni. Varasamt ferðaveður.

Þann 24. des. frá kl. 22:00 til 25. des. kl. 17:00 verður suðvestan stormur með dimmum éljum. Suðvestan 15-23 m/s og dimm él með lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum, hvassast í éljahryðjum. Varasamt ferðaveður.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir