Stöðugildum ríkisins fækkar í fjórðungnum og SSNV krefst þess að ríkisstjórnin bregðist við

MYND SSNV
MYND SSNV

Á vef SSNV kemur fram að Byggðastofnun hefur frá áramótum 2013/2014 gert árlega könnun á staðsetningu starfa á vegum ríkisins. Með störfum á vegum ríkisins er átt við stöðugildi greidd af Fjársýslunni, stöðugildi hjá opinberum hlutafélögum og stofnunum og stöðugildi hjá stofnunum sem hafa meirihluta rekstrartekna sinna af fjárlögum.

Fyrir liggja nú tölur um fjölda stöðugilda við áramót 2022/2023 og eru þær birtar í skýrslunni Hvar eru ríkisstörfin 31.12.2022? Einnig hefur mælaborð þar sem hægt er að skoða fjölda stöðugilda eftir landshlutum, sveitarfélögum og málaflokkum ráðuneyta verið uppfært með nýjustu gögnum.

Stöðugildi á vegum ríkisins voru 27.694 þann 31. desember 2022, þar af voru 18.015 (65%) skipuð af konum og 9.679 (35%) af körlum. Á árinu 2022 fjölgaði stöðugildum um 788 á landsvísu eða 2,9%. Á Norðurlandi vestra fækkaði hins vegar opinberum stöðugildum um 11 eða 2,1%.

Flest stöðugildi á vegum ríkisins eru staðsett á höfuðborgarsvæðinu, enda er meirihluti landsmanna búsettur þar. Hins vegar er hlutfall stöðugilda á höfuðborgarsvæðinu (70%) hærra en hlutfall landsmanna sem þar býr (64%).

Athygli vekur að Norðurland vestra er eini landshlutinn þar sem fækkun hefur orðið á opinberum stöðugildum eða fækkun sem hljóðar upp á 11 stöðugildi.

Að því tilefni sendi Haustþing SSNV frá sér eftirfarandi ályktun:

Haustþing SSNV haldið 12. október 2023 í Húnaþingi vestra skorar á ríkisstjórn Íslands að standa við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna þar sem m.a. er lögð áhersla á markmið um hlutfall opinberra starfa á landsbyggðinni, að fleiri störf hjá ríkinu verði óstaðbundin til að styðja við byggðaþróun, og að hagrænum hvötum verði beitt í byggðaþróun s.s. í gegnum Menntasjóð námsmanna.

Haustþing SSNV krefst þess að ríkisstjórn Íslands bregðist tafarlaust við og beiti markvissum aðgerðum til að opinberum störfum ríkisins á Norðurlandi vestra fjölgi verulega strax á árinu 2024.

Í ljósi metnaðarfullra markmiða ríkisstjórnarinnar er dapurleg staðreynd að skv. glænýrri könnun Byggðastofnunar á staðsetningu starfa á vegum ríkisins hefur opinberum stöðugildum ríkisins fækkað um 11 á Norðurlandi vestra á milli áranna 2021 og 2022, á meðan opinberum störfum ríkisins fjölgaði í öllum öðrum landshlutum á sama tíma - samanlagt um 788 á landsvísu og þar af um 365 á höfuðborgarsvæðinu, 155 á Suðurnesjum og 147 á Suðurlandi.

Þingið skorar jafnframt á ríkisstjórnina að hrinda nú þegar í framkvæmd áherslum stjórnarsáttmálans um aðgerðir til eflingar byggðar um land allt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir