Sigurður Bjarni Rafnsson nýr sláturhússtjóri
Fyrr á þessu ári var sagt frá því að Ágúst Andrésson, forstöðumaður kjötafurðasviðs Kaupfélags Skagfirðinga, hefði ákveðið að láta af störfum hjá Kaupfélagi Skagfirðinga eftir 27 ára starf fyrir félagið. Ágúst starfar til 1. desember næstkomandi.
Í samtali við Sigurjón Rúnar Rafnsson, aðstoðar kaupfélagsstjóra hjá Kaupfélagi Skagfirðinga, segir hann að „samhliða starfslokum Ágústar Andréssonar verða gerðar breytingar á kjötafurðasviði Kaupfélags Skagfirðinga og starf framkvæmdastjóra kjötafurðasviðs lagt niður.“
„Sigurður Bjarni Rafnsson hefur verið ráðinn í endurvakið starf sláturhússtjóra sem tekur við rekstri starfseminnar á Norðurlandi. Þar er Sigurður Bjarni öllum hnútum kunnur því hann snýr nú aftur til starfa við slátrun og vinnslu hjá félaginu. Dótturfélag KS, Esja Gæðafæði ehf., hefur tekið yfir daglega stýringu stórgripasláturhússins á Hellu og Sláturhúss Hellu ehf. enda fara afurðir þess að mestu leyti til vinnslu hjá Esju. Esja sér um öll sölu- og markaðsmál kjötafurðasviðs,“ segir Sigurjón Rúnar að lokum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.