Sagnaskemmtun um gömlu íslensku jólafólin á Heimilisiðnaðarsafninu og á Gránu
Það verður boðið upp á fyrirlestur og sögustund á Heimilisiðnaðarsafninu á Blönduósi á föstudaginn 1. desember klukkan 15:00 og í Gránu á Sauðárkróki sunnudaginn 3. desember kl. 14:00.
Þá mæta Dagrún Ósk Jónsdóttir og Jón Jónsson, þjóðfræðingar á Ströndum, og rifja upp næstum því gleymdar sögur um íslensku jólafólin. Flestir þekkja gamlar og ljótar sögur um Grýlu sem var hryllileg mannæta og jólasveinana sem forðum voru til vandræða hvar sem þeir komu. Sumir í fjölskyldunni eru samt að mestu gleymdir eins og fyrri eiginmenn Grýlu og jólasveinar eins og Lungnaskvettir, Flórsleikir eða Flotnös.
Sagt verður frá óhugnanlegum sögum og þjóðtrú um Grýlu og hennar hyski. Sumt af því hentar varla mjög ungum börnum eða viðkvæmum sálum, en öll sem þora eru hjartanlega velkomin!
Hjá Heimilisiðnaðarsafninu verður boðið upp á kaffi að hætti safnsins en aðgangur er ókeypis á báða viðburðina meðan húsrúm leyfir.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.