Nemendur frá sjö löndum brautskráðust frá Háskólanum á Hólum
Brautskráningarathöfn Háskólans á Hólum var haldin í Menningarhúsinu Miðgarði í Varmahlíð föstudaginn 7. júni. Alls brautskráðust 43 nemendur frá skólanum og þeir komu frá sjö þjóðlöndum en auk Íslendinga voru það nemendur frá Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Þýskalandi, Póllandi og Sviss sem brautskráðust frá Hólum.
Í frétt á heimasíðu Háskólans á Hólum segir að af Ferðamáladeild hafi 25 einstaklingar brautskráðst; átján með diplómu í viðburðastjórnun, einn með BA gráðu í stjórnun ferðaþjónustu og móttöku gesta og sex með BA gráðu í ferðamálafræði.Frá Fiskeldis- og fiskalíffræðideild brautskráðust þrír einstaklingar, með diplómu í fiskeldsfræðum.
Frá Hestafræðideild brautskráðist 15 einstaklingar, með BS í reiðmennsku og reiðkennslu. Athöfnin var gleðistund, en veður hafði mikil áhrif á daginn og óvænt kuldakast með tilheyrandi snjó truflaði mikið. Þess vegna var ákveðið með stuttum fyrirvara að streima athöfninni og voru margir sem fylgdust með í beinni útsendingu.
Hólmfríður Sveinsdóttir rektor flutti ávarp og Margrét Nilsdóttir flutti ávarp fyrir hönd nemenda. Um tónlistarflutning við athöfnina sáu systkinin Emelíana Lillý Guðbrandsdóttir og Eysteinn Ívar Guðbrandsson. Að athöfn lokinni bauð háskólinn nýbrautskráðum Hólamönnum, aðstandendum og starfsfólki til veglegrar veislu sem Sauðárkróksbakarí sá um.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.