Mynd um meistaravetur Stólanna í vinnslu hjá Skottu

Gunni Trausta, Árni Gunn og Elenóra við upptökur þegar meistaralið Tindastóls stoppaði við Síkið daginn eftir að titillinn var í höfn. MYND: ÓAB
Gunni Trausta, Árni Gunn og Elenóra við upptökur þegar meistaralið Tindastóls stoppaði við Síkið daginn eftir að titillinn var í höfn. MYND: ÓAB

Það voru margir sem glöddust óendanlega í vor þegar lið Tindastóls varð Íslandsmeistari í körfubolta og hafa jafnvel horft á sigursöguna ítrekað í allt sumar, enda veislan endursýnd á Stöð2Sport að því er virðist daglega. Ef svo ólíklega vill til að einhver sé að verða leiður á endurtekningunni þá er gaman og gott að segja frá því að nú vinna Árni Gunnarsson, kvikmyndagerðarmaður hjá Skottu, og samverkafólk hans að mynd um meistaratímabilið og hefur hún þegar hlotið nafnið Velkomnir í Síkið.

„Það er rétt, við erum að gera mynd sem heitir Velkomnir í Síkið og hún er um stuðningsmannasveit meistaradeildarliðs Tindastóls í körfubolta og Íslandsmeistaratímabil Stólanna,“ segir Árni þegar Feykir spyr út í verkefnið en það er Skotta sem framleiðir myndina. „Við Elenóra konan mín vorum að mynda leiki í fyrravetur ásamt því að taka viðtöl. Myndin er gerð í samvinnu við körfuknattleiksdeildina; Ágúst Ingi Ágústsson, sagnfræðingur og kennari, hefur veitt okkur lið í handritsgerðinni og einnig hefur Davíð Már Sigurðsson, myndsmiður og grafíker, unnið með okkur að verkefninu,“ segir Árni en að auki verður notast við myndefni frá Gunna Trausta og TindastóllTV og Stöð2Sport.

„Hins vegar snýst þessi saga um miklu meira en bara körfubolta. Hún segir frá því hvernig nærsamfélagið þjappar sér á bak við meistaradeildarliðið og hverju þannig stemning og samstaða getur skilað þegar vel tekst til,“ bætir Árni við en stefnt er að því að koma myndinni á koppinn sem fyrst, helst fyrir árslok. Nánar verður rætt við Árna í Feyki í næstu viku.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir