„Gull af mönnum er lag sem kemur öllum í gang“ | ALEX BJARTUR
Það er óhætt að fullyrða að loks þegar Litla hryllingsbúð Leikfélags Sauðárkróks var opnuð þá hafi Skagfirðingar og nærsveitungar átt bágt með að halda sig fjarri. Þeir voru margir flottir söngvararnir sem hófu upp raust sína á sviðinu í Bifröst, margir þeirra þekktar stærðir hér heima, en einn söngvarinn/leikarinn kom skemmtilega á óvart. Það var Alex Bjartur Konráðsson (árgangur 2002) sem söng fyrir Blómið. Geggjuð rödd.
Alex Bjartur var klár í slaginn þegar Feykir sóttist eftir því að hann svaraði Tón-lystinni. Hann hefur búið alla ævi á Sauðárkróki, sonur Konráðs Leós og Huldu Bjargar og á þrjár systur og einn bróðir. „Ég kann örfá lög á hljómborð en ekki kann ég á það hljóðfæri af neinu viti,“ segir Alex Bjartur sem segir það í raun vera sitt helsta afrek á tónlistarsviðinu að leika rödd plöntunnar í Litlu hryllingsbúðinni.
Hvaða lag varstu að hlusta á? „Síðasta lagið sem ég hlustaði á var Eurovisonframlag Lettlands þetta árið, lagið heitir Hollow eftir Dons.“
Uppáhalds tónlistartímabil? „Ég verð að segja annar áratugur þessarar aldar en 70s lög klikka seint.“
Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? „Ég er mikið búinn að vera að hlusta á Jazz fusion upp á síðkastið en Íslendingar þekkja kannski þá allra helst slíka tónlist hjá hljómsveitunum Mezzoforte og Gammar.“
Hvaða lag er í uppáhaldi akkúrat núna? „Það myndi þurfa að vera Það sem enginn veit/Allt getur svo sem skeð úr Litlu Hryllingsbúðinni.“
Ef þú gætir valið þér söngvara til að syngja með dúett, hvaða söngvara vildirðu syngja með og hvaða lag tækjuð þið? „Í mínum draumaheimi væri það dúett með Stefáni Karli og ég myndi taka með honum Aleinn um jólin, gullfallegt lag.“
Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? „Heima hjá mér var rokk hvað allra helst hlustað á, s.s. Creedence, The Doors og Guns N’ Roses. Á ferðalögum með fjöllunni man maður einnig eftir Páli Óskar og Contalgen Funeral sem mikið var spilað.“
Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? „Ætli það hafi ekki verið Waka Waka með Shakiru þegar HM 2010 var í gangi, fílaði það lag í tætlur á sínum tíma.“
Hvaða græjur varstu þá með? „Það hefur þá verið borðtölva heimilisins og YouTube.“
Hvert var fyrsta lagið sem þú manst eftir að hafa fílað í botn? „Ég man að ég var rosalega mikill Michael Jackson maður þegar ég var yngri og ég dýrkaði lögin hans og þá allra helst Thriller.“
Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn eða fer óstjórnlega í taugarnar á þér? „Það er lagið Used To Be Young með Miley Cyrus, eitthvað við lagið fer rosalega í taugarnar á mér og það er spilað stanslaust á FM957.“
Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? „Gull af mönnum er lag sem kemur öllum í gang.“
Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? „Ornella eftir Armando Trovajoli, ljúf-ir hljómar úr ítalska kvik-myndaheiminum.“
Hvaða Bítlalag hefðir þú viljað hafa samið? „Hey Jude er lag sem ber með sér falleg skila-boð og outro sem er algjört heila-lím, þannig að það er mitt val.“
Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? „Ég myndi skella mér á tónleika í Bandaríkjunum með Tenacious D með félögunum.“
Hvað músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst nýkominn með bílpróf? „Það var mikið blastað JóaPé og Króla en einnig mikið hlustað á Contalgen Funeral.“
Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera eða haft mest áhrif á þig? „Það myndi vera hann Egill Ólafsson.“
Hvaða plata hefur skipt mestu máli í þínu lífi og hvers vegna? „Igor eftir Tyler, the Creator, sú plata opanði mann fyrir nýjum tegundum tónlistar og lög plötunnar segja frá fallegri sögu sem ímyndaði karakter Tylers upplifir.“
- - - - -
Sex mest spiluðu lögin í síma Alex Bjarts:
Slá í gegn / Stuðmenn
Ég fer á Land Rover frá Mývatni á Kópasker / Helgi Björns
E. S. P. / Masayoshi Takanaka
BLEACH / Brockhampton
Haustið ’75 / Stuðmenn
From Now On / Jakob Frímann
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.