Geiri með Söngkvöld í Salnum

Einu sinni var engin Laufskálaréttarhelgi án dansleiks með Hljómsveit Geirmundar. Nú er öldin önnur en þau sem dreymir um ball með Geira þurfa þó ekki að örvænta. Sveiflukóngurinn verður í gamla góða fílingnum í kvöld í Salnum í Kópavogi til að syngja og tralla með gestum í skagfirskri sveiflu. Þegar skemmtanaglaðir komast ekki í Skagafjörðinn þá kemur Skagafjörðurinn til þeirra – það er bara þannig.

Á heimasíðu Salarins segir að vegna mikillar eftirspurnar ætla félagarnir að endurtaka leikinn frá því í vor og halda annað söngkvöld í Salnum. „Þið komið og syngið, við spilum undir“ er haft eftir Geirmundi. „Stórskemmtilegt söngkvöld þar sem gestir taka undir með hljómsveitinni og spiluð verða þekktustu lög Geirmundar ásamt fleiri slögurum sem allir kunna,“ segir síðan í dagskrárkynningu.

Að sjálfsögðu verður síðan nóg um að vera í Skagafirði sjálfum í kvöld fyrir þá sem ekki mæta í Salinn í Kópavogi. Þar með talið stærsta sveitaball ársins í Reiðhöllinni Svaðastöðum. Þessi helgi ætti ekki að geta klikkað – hvort sem menn og konur eru í Skagafirði eða Kópavogi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir