Fornverkaskólinn fær viðurkenningu

MYND AF FACEBOOKSÍÐU FORNVERKASKÓLANS
MYND AF FACEBOOKSÍÐU FORNVERKASKÓLANS

Fornverkaskólinn í Skagafirði fékk í dag minjaverndarviðurkenningu Minjastofnunar Íslands 2023 fyrir mikilvægt brautryðjendastarf í þágu minjaverndar. Á Facebooksíðu Fornverkaskólans segir í  rökstuðningi að viðurkenningin sé veitt fyrir miðlun þekkingar á gömlu handverki til áhugafólks og fagfólks á sviði minjavörslu og að stuðla þannig að varðveislu handverkshefða.

„Fornverkaskólanum þakkar fyrir viðurkenninguna og eru þau stolt af því verki sem þau hafa unnið síðustu 16 árin. Það kemur einnig fram að  margir hafa komið að verkefninu og  það er ekki  hallað á neinn þegar sagt er að systkinin Sigríður Sigurðardóttir og Helgi Sigurðsson frá Ökrum hafi dregið vagninn í öll þessi ár. Ábúendur á Tyrfingsstöðum þau Kristín F. Jóhannsdóttir og Sigurður M. Björnsson hafa sannarlega lagt sitt á vogarskálarnar og einnig starfsmenn Fornverks í gegnum tíðina. Þau sem hafa setið í stjórn Fornverkaskólans og aðrir kennarar sem komið hafa að námskeiðum eiga líka heiður skilinn fyrir sín störf, kemur einnig fram í tilkynningunni. Bragi Skúlason húsasmiðameistari hefur verið verkefninu ómetanlegur sem og styrkaraðilar og aðrir velunnarar. Síðast eru nefnd öll þau 330 sem sótt hafa námskeið Fornverkaskólans en þetta áhugafólk um gamalt handverk er jú grundvöllurinn að farsæld verkefnisins.“

Fornverkaskólinn hefur frá 2007 boðið upp á námskeið í gömlu byggingahandverki og hefur áherslan verið á torfhleðslu, grindarsmíði/timburviðgerðir og grjóthleðslu. Þó hafa einnig verið haldin námskeið í gluggasmíði í samstarfi við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, vinnslu rekaviðar og vefnaði á kljásteinavefstað með Byggðasafni Skagfirðinga.

Fornverkaskólinn er samstarfsverkefni Byggðasafns Skagfirðinga, Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra og Háskólans á Hólum. 

Feykir óskar Fornverkasólanum innilega til hamingju með þessa viðurkenninu. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir