FISK Seafood með fjórða mesta kvótann
Nýtt fiskveiðiár hefst nú í vikulokin eða þann 1. september og í tilkynningu frá Fiskistofu segir að 360 skipum í eigu 282 aðila hafi verið úthlutað kvóta. Þau fimm fyrirtæki sem fá úthlutað mestum kvóta fá hátt í 36% kvótans eða ríflega þriðjungshlut. Í þeim hópi er FISK Seafood sem fær úthlutað fjórða mesta kvótanum eða 6,14%.
Úthlutun í þorski er rúm 166 þúsund þorskígildistonn en var tæp 164 þúsund þorskígildistonn á síðasta fiskveiðiári. Úthlutun í ýsu er rúm 55 þúsund þorskígildistonn og hækkar um 7 þúsund þorskígildistonn milli ára.
Í frétt á 200 mílum á Mbl.is segir: „Sem fyrr er Brim með stærstu hlutdeildina [10,44%] en á eftir fylgir Ísfélagið hf. með 7%, svo Samherji með 6,93%, FISK Seafood með 6,14% og svo Þorbjörn með 5,33% ... Hafa ber þó í huga að ekki hefur verið úthlutað í öllum tegund um og kann því þessi listi að taka breytingum. T.a.m. verður loðnukvóta líklega úthlutað í október.“
Fram kemur í fréttinni að af leyfðum heildarafla eru dregin frá 5,3% og fara 2.442 tonn í skel og rækjubætur 2.442 tonn, 6.500 tonn í byggðakvóta til fiskiskipa og byggðakvóti Byggðastofnunar verður 6.584 tonn. Þá er strandveiðum úthlutað 11.100 tonn, línuívilnun 2.025 tonn og frístundaveiðum 200 tonn.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.