Útskrifast úr húsasmíðanámi um áramótin

Þetta eru þeir Kristinn Freyr Briem, Sigurjón Heiðar Sigurbjörnsson, Eyþór Jónatansson og Gunnar Þorleifsson.
Þetta eru þeir Kristinn Freyr Briem, Sigurjón Heiðar Sigurbjörnsson, Eyþór Jónatansson og Gunnar Þorleifsson.

Í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra er nítján ára drengur, Sigurjón Heiðar Sigurbjörnsson, sem er sonur Sigfríðar Sigurjónsdóttur og Sigurbjörns Hreiðars Magnússonar í Litla Garði í Hegranesinu, en hann sækir nám í húsasmíði. Um áramótin nær hann þeim merka áfanga að útskrifast úr húsasmíðanáminu en það hefur því miður gengið ýmislegt á í hans lífi og því ekki sjálfgefið að það sé að takast hjá honum.

Þegar Sigurjón var búinn með tvær annir af náminu og nýbyrjaður á þeirri þriðju lenti hann í bílslysi sem hafði þær afleiðingar að í dag notast hann við hjólastól. Þegar hugur hans fór að leita aftur á skólabekkinn eftir slysið taldi hann þann möguleika að halda áfram í húsasmíðanáminu ekki gerlegan og ætlaði sér að skipta yfir í bóklegt nám. En þegar húsasmíðakennarinn hans, Óskar Atlason, frétti af því náði hann að sannfæra Sigurjón um að halda áfram sínu striki og klára námið sem hann var byrjaður á, skólinn myndi aðlaga sig að hans þörfum, svo hann gæti útskrifast. Það var svo niðurstaðan og farið var í að festa kaup á tækjabúnaði við hæfi. Það sem skipti mestu máli fyrir Sigurjón var smíðabekkurinn en hann er með hæðastillingu sem gerir það að verkum að Sigurjón er alltaf að vinna í sinni réttri hæð. Aðspurður hvort aðstaðan í skólanum sé góð fyrir fólk í hjólastól segir hann að hún sé mjög góð en það er alltaf hægt að gera betur. „Spurningin er samt ekki alltaf hvað þarf að breyta heldur er það hugafarið hvernig get ég reddað mér við hinar og þessar aðstæður, sú hugsun hefur komið mér langt ekki bara í náminu heldur í lífinu, segir Sigurjón.

Feykir spurði Sigurjón einnig að því hvort hann mæli með húsasmíðanáminu í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra og svaraði hann snöggt og örugglega „Já, hér eru frábærir kennarar, góður mórall og mikill stuðningur frá smíðafyrirtækjum í Skagafirði sem eru alltaf að búa til verkefni fyrir okkur og gefa okkur vinnufatnað.“ Þá sagði Sigurjón að hann sé ekki alveg búinn að ákveða hvað hann ætlar að gera eftir útskriftina en hann langar mikið til að prufa að vinna á gröfu. Að lokum vildi Sigurjón senda kveðju á Óskar Atlason fyrir að koma sér aftur í að smíða og er hann honum mjög þakklátur fyrir það.

Feykir þakkar Sigurjóni kærlega fyrir spjallið og óskar honum velfarnaðar í þeim verkefnum sem hann tekur sér fyrir hendur eftir námið. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir