Skagfirðingar sem búa í Grindavík- Pétur Pétursson og Kristrún Ingadóttir

Pétur Pétursson og Kristrún Ingadóttir, börnin þeirra Snædís Ósk, Birta María og Pétur Jóhann eru svo á myndinni neðar í fréttinni.MYNDIR AÐSENDAR
Pétur Pétursson og Kristrún Ingadóttir, börnin þeirra Snædís Ósk, Birta María og Pétur Jóhann eru svo á myndinni neðar í fréttinni.MYNDIR AÐSENDAR

Pétur Pétursson og Kristrún Ingadóttir hafa búið í Grindavík síðan 2013 ásamt börnunum sínum þremur þeim, Birtu Maríu, Snædísi Ósk og Pétri Jóhanni. Skipastígur er gatan sem þau búa við og er hún staðsett í vesturhluta Grindavíkur. Pétur er fæddur og uppalinn á Sauðárkróki, sonur Péturs frá Álftagerði og Bettýar Ögmundar og Mæju, en Kristrún er af höfuðborgar- svæðinu. Fjölskyldan bjó á Sauðárkróki áður en þau fluttu suður til Grindavíkur. Feykir hafði samband við Kristrúnu til að taka stöðuna á fjölskyldunni á þessum miklu óvissutímum jarðhræringa á Reykjanesinu.

Hvernig líður ykkur? „Eftir föstudaginn var taugakerfið útþanið þegar við komum í Kópavoginn, það er ekki hægt að lýsa þessu hvernig þetta var þarna í Grindavík meðan skjálftarnir voru. Þetta er búinn að vera algjör tilfinninga rússíbani þessi lífsreynsla og alveg ömurlegt að vera í þessari óvissu, hvort eða hvenær verður hægt að komast heim. Við erum enn að átta okkur á að þetta sé að gerast og eflaust á höggið eftir að koma þegar líður á. Við höfum miklar áhyggjur af húsinu okkar og það er mjög erfitt að hugsa til þess möguleika að komast ekki aftur heim,“ segir Kristrún.

 Var auðvelt fyrir ykkur að finna samastað, voru þið farin áður en bærinn var formlega rýmdur? „Þegar skjálftarnir urðu frekar kröftugir upp úr kl. 16 föstudaginn 10. nóvember og jukust eftir því sem leið á þá ákváðum við að nú væri nóg komið. Klukkan 18 um kvöldið fórum við að pakka í töskur. Á þessum tíma voru upptök skjálftanna komin undir Grindavík sem við vissum ekki. Við sendum börnin fyrst af stað á meðan við Pétur kláruðum að pakka niður og ganga frá íbúðinni með því að taka allt niður úr hillum því sem að gæti dottið og vorum því lögð af stað í kringum kl. 20. Við ætluðum bara að fara í smá skjálftafrí yfir helgina. Þegar við vorum búin að koma okkur fyrir í Kópavoginum hjá mömmu minni þá fengum við þær fréttir að rýming væri hafin. Við eigum mjög gott bakland og lentum ekki í neinum vandræðum að finna samastað, “heldur Kristrún áfram.

 Hafið þið fengið að fara aftur heim til að sækja eitthvert dót eða gæludýr? „Við vorum búin að bíða eftir fréttum um hvort væri hægt að hleypa fólki inná svæðið til að ná í nauðsynjar. Fyrstu fréttir komu inn á mánudagsmorgun að fyrirtæki og hluti bæjarbúa úr Hópshverfi sem er austan megin í bænum fengju að fara. Við biðum því eftir að fá grænt ljós á okkar hverfi sem kom inn upp úr hádegi. Svo við brunuðum af stað þar sem að hleypa átti okkur inn. Við biðum í 1 og 1⁄2 tíma í biðröð á Krísuvíkurvegi og vorum við komin í húsið um miðjan dag, þar sem við náðum að sækja fatnað, myndir og aðra persónulega muni. Tíkin okkar fór í pössun til mömmu minnar viku áður en þetta reið yfir þar sem að hún var ekki að höndla skjálftana. Þegar við flúðum skjálftana þá tókum við kettina með okkur í bæinn,“ bætir Kristrún við.

 Nú hafa verið gríðarlegir skjálftar, var orðið mikið tjón heima hjá ykkur áður en þið yfirgáfuð heimilið? „Á föstudeginum síðasta var sú allra harðasta hrina sem hefur komið og við flúðum úr húsinu í miðri hrinu, höfum svo bara rétt fengið að skjótast heim til að sækja hluti, þannig að okkur gafst enginn tími til að vera að athuga með tjón. Húsið er staðsett í þeim hluta bæjarins sem sigdalurinn er að myndast og er enn að síga þar. Það hefur ekkert sjáanalegt tjón orðið að utan og innan svo við vitum en það á tíminn eftir að leiða í ljós þegar hægt verður að skoða húsið betur. “

 Hvernig er staðan næstu vikur hvað varðar skóla og vinnu. Vitið þið eitthvað, er hægt að gera einhver plön í svona mikilli óvissu? „Staðan er frekar óljós í sambandi við skóla fyrir yngri börnin tvö sem ennþá eru í grunnskóla en verið er að vinna í því og elsta hefur ekkert heyrt frá sínum skóla. Pétur er öruggur með sína vinnu úti á sjó en ég vinn á leikskólanum Króki í Grindavík og er mín staða frekar óljós hvað framhaldið verður. Við erum ennþá að átta okkur á því að við erum ekki að fara heim neitt á næstunni svo að við eigum eftir að finna út hver næstu skref hjá okkur fjölskyldunni verða,“ segir Kristrún að lokum.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir