Álft og gæs ágeng í kornökrum
Áhættan við kornrækt getur verið þó nokkur og ekki bara sökum misjafnra veðurskila á Fróninu, heldur blasir það nú við bændum að kornið er orðið að hlaðborði villibráðarinnar.
Álftin hefur sest að í korninu í Vallhólma fyrir neðan Varmahlíð í Skagafirði og unir vel við sitt. Álftin er ekki eini fuglinn sem gerir sig heimakominn í ökrunum heldur er gæsin líka á ferðinni. Eitthvað hefur verið setið fyrir gæsinni, enda skotleyfi á henni en ekki álftinni. Það virðist ekki vera nóg til að halda þeim fjarri. Bændur búa ekki í Vallhólmi og ef vel ætti að vera þyrfti að standa sólahringsvakt til að hrekja fuglinn úr ökrunum, segir Bessi Freyr Vésteinsson sem á kornið í Vallhóla sem fuglinn er farinn að gæða sér á.
„Ágangur fugla er alltaf eitt af vandamálunum sem þarf að kljást við þegar maður fer út í kornrækt,“ segir Bessi sem ber sig þó vel og vill helst ekki vera að barma sér mikið yfir vandamálinu, það sé bara partur af þessu en segir jafnframt að þær séu að minnsta kosti ekki í korninu hjá einhverjum öðrum á meðan.
Fyrr í sumar tók Bessi þá ákvörðun í samráði við fagmenn að slá og rúlla hluta af kornökrunum þegar ljóst var að sprettan væri hæg og þroski seinn sökum kulda. Þeir skildu eftir 15 hektara af korni sem þeir sjá fyrir sér að þreskja. „Ætli álftin sé ekki búin með svona einn hektara af því,“ áætlar Bessi.
Það eru þrjár þreskivélar sem kornbændur í Skagafirði eiga í sameiningu og það er akkúrat um þessar mundir sem kornið er að verða tilbúið til þreskingar. „Það er bara núna í þessum þurrki sem bændur eru að byrja að þreskja og þá fara þeir í röðina,“ segir Bessi.
Að lokum var ekki hægt að sleppa því að spurja Bessa út í kartöfluuppskeruna, því þau eru jú byrjuð að taka upp kartöflur á Hofsstöðum. Hann segir eftir sínu fólki, sem byrjað er að taka upp, að uppskeran sé betri en þau þorðu að vona miðað við tíðarfarið, hún sé alveg vel viðunandi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.